Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Fíflið veitir valdhöfum aðhald“

Mynd með færslu
 Mynd: Innsend

„Fíflið veitir valdhöfum aðhald“

13.08.2022 - 17:28

Höfundar

Eftir fjörutíu ára starf í íslensku leikhúsi, sjónvarpi og kvikmyndum ætlar Karl Ágúst Úlfsson að hætta að leika og einbeita sér að skrifum. Karl Ágúst var gestur í Vikulokunum á Rás 1 í dag, þar sagðist hann ánægður með ferilinn og að hann vilji ljúka honum á eigin forsendum.

Karl Ágúst ætlar að ljúka ferlinum með leiksýningu eftir sjálfan sig í Tjarnarbíói. Sýningin verður frumsýnd í byrjun september og heitir Fíflið, það segir hann að sé hlutverk sem hann hafi oft verið í. „Fíflið er fyrirbæri sem er orðið afgamalt í mannkynssögunni, hirðfíflið. Sá sem veitir konungnum og valdhafanum aðhald. Fíflið má segja hvað sem er svo framarlega sem það er fyndið. Þegar ég fór að velta fyrir mér ferli mínum og hvernig ég vildi að þessu lyki þá leitaði þessi hugmynd mikið á mig. Ég hef í raun og veru, ásamt félögum mínum, gengt einhverskonar hliðstæðu hlutverki við fíflið við hirð konunga,“ segir Karl Ágúst.

Spaugstofan ótrúlegt afrek

Karl Ágúst tekur undir að það hafi verið ótrúlegt hvernig þeim félögunum í Spaugstofunni hafi tekist að framleiða nýjan þátt í hverri viku. „Ég verð bara að segja já við því, það er ótrúlegt. Ég hef spjallað við kollega mína í öðrum löndum sem vinna við að skrifa fyrir sjónvarp og framleiða þætti sem eru kannski á einhvern hátt hliðstæðir við það sem við vorum að gera. Menn hrista bara hausinn. En þetta gerðum við, við höfðum eina viku. Á þessari viku þurftum við að vinna hugmyndavinnu, handrit, alla undirbúningsvinnu á öllum deildum sem stóðu að upptökunum og skjóta þáttinn. Koma honum hellst í loftið á réttum tíma.“

Karl Ágúst rifjar upp að þó hafi ekki alltaf tekist að hafa þættina tilbúna alveg á réttum tíma og segir frá því að Rósa Ingólfsdóttir sem starfaði sem þula hafi stundum teigt lopann og sagt sögur í beinni útsendingu á meðan beðið væri eftir því að þátturinn væri tilbúinn.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

„Viðurkennir þú að tilheyra hópi sem kallar sig spaugstofuna?“

Spaugstofumenn fengu á þeim tíma sem hópurinn var starfandi á sig kærur. Bæði fyrir guðlast og fyrir klám. karl Ágúst segir margt spaugilegt í því og oftast hægt að hlægja að því þegar litið sé til baka, þó hafi verið alvarlegur undirtónn. „Ein kæran var fyrir guðlast. Okkur fannst það sjálfum fyndið og við tókumst á við það á þann hátt. Vitandi það að við gætum fengið dóm. En hin hliðin á því máli var að heittrúaðir bókstafstrúarmenn sem áttu við vandamál að stríða hótuðu okkur lífláti og að sjálfsögðu helvítisvist. Þeir voru kannski hringjandi heim til okkar á öllum tímum sólarhringsins.“ 

Karl Ágúst segir þá bæði hafa fengið beinar hótanir og að mikið hafi verið rætt um þetta meðal annar í innhringitímum í útvarpi sem tíðkuðust mikið á þessum tíma. „Á meðan þetta var að gerast þá var ofboðsleg reiði í samfélaginu yfir þessu.“

Að lokum rifjar Karl Ágúst upp skýrslutöku vegna ákærunnar um guðlast, þá hafi hann gengið inn þar sem maður sat við skrifborð með stóran stafla af VHS spólum sem á var letrað „Spaugstofan“. Fyrst hafi hann verið spurður til nafns „síðan kemur næsta spurning, sem var, viðurkennir þú að tilheyra þeim hópi sem kallar sig spaugstofuna?“