„Þessi afsökunarbeiðni er mjög vel gerð og ég er sátt“

Mynd: Emma Ledbetter / Emma Ledbetter

„Þessi afsökunarbeiðni er mjög vel gerð og ég er sátt“

12.08.2022 - 13:39

Höfundar

„Í rauninni var þetta bara opið sár sem varð dýpra og dýpra því lengur sem tíminn leið og ekkert var sagt,“ segir Elínborg Hörpu og Önundarbur sem var handtekið í Gleðigöngu Hinsegin daga 2019. Stjórn Hinsegin daga sendi í gær frá sér afsökunarbeiðni þar sem hún harmar að hafa nafngreint Elínborgu við lögreglu sem hafi verið notað sem rökstuðningur fyrir harkalegri handtöku.

Elínborg Hörpu og Önundarbur telur nafngreiningu stjórnar Hinsegin daga í samtali við lögreglu hafa leitt til handtöku sinnar daginn sem Gleðigangan fór fram í Miðbænum árið 2019.

Hán kærði handtökuna og voru greiddar miskabætur af íslenska ríkinu. Í málsgögnum kemur fram að stjórn Hinsegin daga hafi nafngreint Elínborgu sem mögulega ógn við öryggi þátttakenda. Hán hefur lengi barist fyrir að stjórnin biðjist afsökunar á nafngreiningunni og formleg afsökunarbeiðni barst í gær, þremur árum eftir handtöku. Elínborg sagði frá málsatvikum í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.  

Handtaka í Gleðigöngu 

Elínborg Hörpu og Önundarbur var handtekið á Skólavörðustíg skömmu fyrir upphaf Gleðigöngu Hinsegin daga 2019. Hán er aktívisti og hefur látið til sín taka í baráttu flóttafólks á Íslandi. Í baráttu sinni með flóttafólki hefur Elínborg kynnst lögreglu sem hefur haft afskipti af mótmælum.

Elínborg sá til lögreglumanna á leið sinni í gönguna og fann fyrir óöryggi því hán taldi líklegt að lögreglan kannaðist við sig vegna þessa og myndi hafa afskipti af sér. En hán kveðst hafa hrist áhyggjurnar af sér og gengið framhjá lögreglumönnunum.

„Halló, það er fullt af fólki, ég er ekki að gera neitt og er eitt á ferð,“ rifjar hán upp að hafa hugsað. Áhyggjur Elínborgar virtust þó á rökum reistar því hán var handtekið af lögreglu áður en hán gat tekið þátt í Gleðigöngunni.  

Elínborg skrifaði sjálft pistil á Facebook-síðu sína þar sem hán greindi frá því að hafa fengið áverkavottorð í kjölfar handtökunnar sem sýndi fram á að hún hefði verið harkaleg. Hán skrifar:

Úr áverkavottorði, 17. ágúst, 2019:
- Mar og yfirborðsáverkar umhverfis augu
- Mar og yfirborðsáverkar á andliti
- Áverki á olnboga
- Mar og yfirborðsáverki á mjöðm/læri
- Dofi í útlimum
- Áverki á framhandlegg
- Höfuðverkur

Samtal stjórnar og lögreglu

Elínborg komst að því eftir handtökuna að stjórn Hinsegin daga 2019 hefði nefnt hán á nafn sem mögulega ógn við öryggi göngunnar. Það segir hán að komi fram í lögregluskýrslum sem Elínborg óskaði eftir að fá að skoða.

Uppgötvunin kom Elínborgu í opna skjöldu og hán hafði að sögn strax samband við göngustjórn Hinsegin daga. „Þá byrjar þessi skrýtna þögn,“ segir hán um framhaldið. 

Elínborg segist í kjölfarið ítrekað hafa reynt að hefja samtal við stjórn Hinsegin daga en hafa talað fyrir daufum eyrum. Hinsegin dagar sendu þó frá yfirlýsingu 2020 þar sem harkaleg handtaka Elínborgar var hörmuð en háni þótti hún ekki fullnægjandi.

„Þau nefndu aldrei að þau hefðu í raun átt beinan þátt, eða mjög stóran þátt, í því að þetta kom fyrir,“ segir Elínborg sem kveðst hafa saknað þess að stjórnin tæki ábyrgð á málsatvikum.

Mótmæli á opnunarhátíð upphafið 

Hán segir að málið hafi hafist þegar hópur róttæks hinsegin fólks hafi skipulagt  sérstaka dagskrá á Hinsegin dögum 2019 sem var fyrir utan hefðbundna dagskrá hátíðarinnar.

Hópurinn mætti á opnunarhátíð Hinsegin daga til að kynna sína dagskrá og dreifði dreifildum í anddyri Háskólabíós.

Einhverjar raddir hafa heyrst um að hluti þeirra sem sóttu dagskrána á hátíðinni hafi upplifað uppákomu hópsins sem ógnandi. Elínborg segir að það hafi ekki verið ætlunin. „Ég held að fólk hafi upplifað þennan gjörning á mjög ólíkan átt,“ segir hán.

Í kjölfar uppákomunnar á opnunarhátíðinni mat stjórn stöðuna svo að ætla mætti að þessi róttæki hópur myndi líklega láta á sér kveða í Gleðigöngunni. Til að reyna að stemma stigu við mögulegum mótmælum segir Elínborg ljóst að stjórn hafi séð tilefni til að nefna meðal annars Elínborgu sérstaklega á fundi lögreglu. Nú hefur stjórnin viðurkennt að það hafi verið mistök að nafngreina einstakingana.

Afsökunarbeiðni barst í gær

Vegna samkomutakmarkana hefur Gleðiganga Hinsegin daga ekki getað farið fram síðan árið 2019, fyrr en í ár en Elínborg segist sjálft ekki hafa treyst sér til að mæta eftir atvikið fyrir þremur árum.

Í göngunni mátti að þessu sinni sjá margs konar skilti þar sem þátttöku lögreglu var mótmælt og önnur þar sem handtöku Elínborgar var mótmælt og stjórn krafin um afsökunarbeiðni.

Formleg afsökunarbeiðni kom í gær og er Elínborgu að sögn mikill léttir.  

Baráttan heldur áfram 

Aðspurt hvort Elínborg muni í kjölfar afsökunarbeiðninnar treysta sér til mæta í Gleðigönguna að ári segist hán ekki visst.

Hán er þó þakklátt fyrir afsökunarbeiðnina og segir að hún sé góður grunnur fyrir sig til að geta byrjað að græða sárin. „Í rauninni var þetta bara opið sár sem varð dýpra og dýpra því lengur sem tíminn leið og ekkert var sagt,“ segir hán um aðdragandann.

Hán segist vera afar létt og að hán sé hvergi nærri af baki dottið í baráttu sinni fyrir réttlæti. „Mín samfélagssýn breytist ekki við þetta og ég held áfram að vinna að mínum baráttumálum,“ segir Elínborg að lokum.

Rætt var við Elínborgu Hörpu og Önundarbur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hlusta má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Innlent

Svar sundsambandsins vonbrigði

Innlent

Vilja fá umboðsmann fyrir flóttafólk