Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lýsir mismunun og slæmri reynslu á Íslandi

12.08.2022 - 10:12
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnars - RÚV
Chris Jastrzembski, fyrrverandi leikmaður Selfoss í knattspyrnu, segir í samtali við pólska miðilinn Przeglad Sportowy að hann hafi sætt grófri mismunun á meðan hann dvaldi hér á landi.

Hinn 25 ára gamli Jastrzembski lék níu leiki með Selfyssingum í Lengjudeildinni en var leystur undan samningi í júlí.

Í viðtali við pólska miðilinn segir hann að Ísland sé versta land sem hann hafi nokkurn tímann komið til og að hingað muni hann aldrei aftur koma. 

„Ég fer aldrei aftur þangað. Fjöldi Pólverja býr á Íslandi og það er fínt fólk en ég lenti í hrikalegri lífsreynslu með Íslendingunum. Ég mæli ekki með því að neinn fari þangað. Fólk er dregið í dilka. Félagið kom verr fram við mig af því ég er með pólskt vegabréf,“ sagði Jastrzembski.

Hann segir Íslendinga, meðal annars samherja sína og þjálfara hjá Selfossi, hafa komið illa fram við sig af því hann er pólskur. 

Jastrzembski segir í viðtalinu að yfirmaður sinn hjá Selfossi hafi meðal annars sagt, eftir að hann datt niður stiga, að engu máli skipti ef hann myndi deyja þar sem hann er pólskur. Fjöldi annarra Pólverja gæti komið í hans stað.

„Ég bað konu um að halda við stiga fyrir mig. Síðan kom yfirmaðurinn og sagði að ég þyrfti enga aðstoð enda væri ekki svo mikill vindur. Konan gekk í burtu og ég datt. Hún var miður sín og baðst afsökunar en ég sagði að þetta væri ekkert mál af því þetta gæti komið fyrir hvern sem er. Þá sagði yfirmaðurinn eitthvað við hana á íslensku sem ég skildi ekki. Konan sagði mér síðan að hann hafi sagt að ég væri bara pólskur. Ef ég myndi deyja væru margir Pólverjar sem gætu komið í staðinn.“

Þórgnýr Einar Albertsson