Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Húsleitin hjá Trump sögð tengjast skjölum um kjarnavopn

epa10112629 Authorities stand outside Mar-a-Lago, the residence of former president Donald Trump, amid reports of the FBI executing a search warrant as a part of a document investigation, in Palm Beach, Florida, USA, 09 August 2022.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Húsleit bandarísku alríkislögreglunnar í Mar-a-Lago-setri Donalds Trumps fyrrverandi Bandaríkjaforseta er sögð hafa snúið að skjölum varðandi kjarnavopn. Trump kveðst samvinnufús við yfirvöld.

Embættismenn vestra eru sagðir hafa þungar áhyggjur yfir því hvaða opinber gögn Trump hafði í fórum sínum á setrinu.

Í nýrri frétt The Washington Post er greint frá því að leitin á þriðjudag hafi einkum beinst að skjölum sem varða kjarnorkuvopn en að ekki sé ljóst hvort skjölin tengdust vopnabúri Bandaríkjanna eða annarra landa né heldur hvort slík skjöl fundust.

Þegar var greint frá því að húsleitin tengdist meintum misbrestum forsetans fyrrverandi við meðferð skjala.

Hvorki dómsmálaráðuneytið né alríkislögreglan hefur tjáð sig frekar um málið að öðru leyti en því að Merrick Garland dómsmálaráðherra sagðist í kvöld sjálfur hafa samþykkt að alríkislögreglan færi fram á heimild til leitar í híbýlum Trumps.

Hann sagði þá ákvörðun hafa verið tekna að vel ígrunduðu máli en grunsemdir hefðu verið nógu sterkar til að láta til skarar skríða. Garland sagði sömuleiðis að ráðuneytið hefði beðið dómstól í Flórída um að leitarheimildin og skjöl henni tengd yrðu gerð opinber.

Hins vegar kvaðst hann ekki vita hve langan tíma það tæki. Trump sagði í yfirlýsingu í kvöld að hann, lögmenn hans og aðrir fulltrúar væru samvinnufús við yfirvöld. Í yfirlýsingunni segir jafnframt að komið hafi verið á góðum samskiptum þar á milli.