Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Flytja vikur á kortersfresti allan sólarhringinn

12.08.2022 - 14:17
Mynd með færslu
 Mynd: Efla
Þýska fyrirtækið EP Power Minerals, hyggur á efnistöku á vikri á Mýrdalssandi austan og suðaustan við Hafursey, svokallaðri Háöldu. Vikurinn verður fluttur út til Evrópu, og mögulega N-Ameríku, þar sem hann verður notaður sem íblöndunarefni í framleiðslu á sementi.

Þetta kemur fram í umhverfismatsskýrslu um verkefnið, sem gerð var af Eflu, og er nú til umsagnar hjá Skipulagsstofnun. 

Vikrinum verður ekið til Þorlákshafnar allan sólahringinn þegar fyrirhuguð efnistaka hefst, þar sem honum verður siglt út í heim. Fyrirhugað er að aka stórum vöruflutningabílum milli Mýrdalssands og Þorlákshafnar fullum af vikri á kortersfresti allan sólarhringinn og tómum bílum til baka með sömu tíðni. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er ráðgert að aðeins verði gert hlé á starfseminni um jól og fram í janúar.

Sandurinn dugar í 100 ár 

Fyrirhugað efnistökusvæði er 15,5 ferkílómetrar og talið er að auðvinnanlegur vikur á því svæði sé um 146 milljónir rúmmetra. Miðað er við um 286 þúsund rúmmetra efnistöku fyrsta árið en um milljón rúmmetra efnistöku á ári að fimm árum liðnum. Miðað við áætlanir ætti vikurlagið á Mýrdalssandi að duga til uppgreftrar í ein 100 ár.

Fyrirtækið EP Power Minerals er eigandi þess lands sem um ræðir í gegnum félagið Mýrdalssandur ehf. Þrír Íslendingar eiga svo 10% í Mýrdalssandi í gegnum félagið Lásastígur ehf. 

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV