Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sprengingar heyrðust frá herflugvelli í Hvíta-Rússlandi

epa05033162 A handout frame grab from video footage released by the Russian Defence Ministry on 19 November 2015 shows a Russian Tu-160 long-range strategic bomber landing at an airbase deployed in Russia after its mission in Syria, 19 November 2015.
Rússnesk Tu-160 sprengjuþota. Mynd: EPA - RUSSIAN DEFENCE MINISTRY
Sprengjuhvellir heyrðust frá flugvellinum Zyabrovka í suðaustanverðu Hvíta-Rússlandi í nótt, þar sem rússneski herinn geymir herflugvélar, samkvæmt frétt pólska ríkisútvarpsins. Varnarmálaráðuneyti Hvíta-Rússlands þvertekur fyrir að sprengingar hafi orðið á flugvellinum.

Pólska ríkisútvarpið, TVP World, greindi frá sprengjuhvellunum í morgun, og hefur það eftir þeim sem standa að vefsíðunni Belaruski Hajun Project. Þau fylgjast með og greina frá hreyfingum hersins og hergagna í Hvíta-Rússlandi.

Átta hvellir, höggbylgjur og blossar á himni

Þau sögðu frá því að minnst átta hvellir hefðu heyrst nærri flugvellinum á um sjö mínútna tímabili eftir miðnætti, og fullyrtu að nærstaddir hefðu fundið höggbylgjur eftir sprengingarnar og séð blossa á himni. Þau segjast hafa fleiri en eina heimild sem staðfestir þessar upplýsingar.

Frásögn Belaruski Hajun Project hefur hins vegar ekki fengist staðfest. Varnarmálaráðuneyti Hvíta-Rússlands þvertekur fyrir að sprengingar hafi orðið, heldur segja að kviknað hafi í þotuhreyfli við prófanir á tækjabúnaði og engann hafi sakað. Flugherinn var við æfingar á vellinum í gær, en ekki er vitað hvort sprengingarnar tengdust þeirri æfingu.

Ekkert heyrst frá úkraínskum yfirvöldum

Zyabrovski flugvöllurinn er í Gomel-héraði í Hvíta-Rússlandi, nærri landamærunum að Úkraínu. Í gær skemmdust minnst átta flugvélar rússneska hersins í sprengingu á Krímskaga. Úkraínsk yfirvöld hafa ekkert tjáð sig um þær sprengingar, en greinendur telja líklegt að úkraínski herinn hafi verið að verki.

Ef rétt reynist að rússneskar herflugvélar hafi verið sprengdar í Hvíta-Rússlandi í nótt og hafi það verið verk úkraínska hersins, yrðu það stórtíðindi og myndi marka vatnaskil í stríðinu. Það væri þá í fyrsta sinn sem úkraínski herinn gerir árás á hvítrússneskri grundu.