Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Íhuga að halda börnum heima þegar skólinn byrjar

11.08.2022 - 11:54
Mynd: RÚV / RÚV
Foreldrar barna sem þurfa að fara um Vatnsnesveg íhuga að halda þeim heima þegar skólarnir hefjast og hafa sett sig í samband við umboðsmann barna. Móðir segir að akstur eftir holóttum veginum, tugi kílómetra, skapi vanlíðan og kvíða meðal barna.

Margra ára barátta

Vatnsnesvegur er 70 kílómetra malarvegur frá Hvammstanga og út fyrir Vatnsnes. Hann hefur ítrekað verið til umfjöllunar síðustu ár þar sem fjallað hefur verið um slæmt ástand hans og tíð umferðarslys. Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir, grunnskólakennari, sem ekur veginn á hverjum degi segir ástandið aldrei hafa verið verra. „Vegurinn er bara ófær á löngum kafla ef maður getur orðað það þannig. Bílarnir svosem skrölta þetta og fólk þarf að nota veginn til að komast frá A til B en hann er bara hræðilegur,“ segir Guðrún. 

Sjá einnig: „Bara malbika þetta, punktur"

Foreldrar hafa fengið nóg

Tæplega þrjátíu börn þurfa að fara þar um á hverjum degi, allt að fimmtíu kílómetra, og nú segir Guðrún foreldra hafa fengið nóg. „Þannig að fólk er bara mjög alvarlega farið að skoða það, svona lagalega séð, hver réttur þeirra er til að halda börnum heima þegar ástandið er svona. Ég er búin að senda erindi til umboðsmanns barna og bíð eftir svari við því, bara reyna fá stuðning vegna þess að þetta eru bara ekkert viðunandi aðstæður fyrir lítil börn.“

Börn kvíðin

Hún segir veginn ekki bara orsaka óþægindi fyrir börn heldur geta afleiðingarnar verið verri. „Kennarar hafa lýst yfir áhyggjum sínum varðandi grunnskólabörn, vegna þess að þegar þau koma í skólann þá eru þau bara oft á tíðum ekki tilbúin til að fara að taka þátt í starfinu. Ég þekki það líka vegna þess að ég er að vinna í grunskólanum að ég veit alveg að það eru dæmi þess að börn sem búa á svæðinu eru hreinlega kvíðin fyrir því þurfa að ferðast í skólann.“

Kallar eftir svörum frá ráðamönnum

Samgönguáætlun gerir ráð fyrir að þremur milljörðum króna verði varið í endurbætur á veginum. Það verður þó ekki fyrr en á árunum 2030 til 2034. „Tíu ár fram í tímann, þá eru bara börnin okkar núna sem eru á yngsta stigi í grunnskóla þau verða bara komin upp úr grunnskólanum og þá verða þau búin að standa í þessu í tíu ár. Það er líka það að við fáum engin svör, það er búið að reyna að hafa samband við Vegagerðina og það er búið að reyna að ná sambandi við þingmenn og þess háttar og það bara heyrist ekki neitt.“

Ólafur Benediktsson, sæðingamaður sem ekur veginn nær daglega birti meðfylgjandi myndband á Facebook og gaf fréttastofu góðfúslegt leyfi til að birta það með fréttinni.