Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ástralar halda Oliviu Newton-John veglega kveðjuathöfn

epa10112029 A handout photo made available by the Las Vegas News Bureau shows Olivia Newton-John arriving at the Flamingo in Las Vegas, Nevada, USA, 02 April 2014 (issued 09 August 2022). Olivia Newton-John died from cancer at the age of 73 at her home in Southern California on 08 August 2022.  EPA-EFE/BRIAN JONES / LAS VEGAS NEWS BUREAU / HANDOUT Mandatory credit: EPA via Las Vegas News Bureau/ Brian Jones HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - LAS VEGAS NEWS BUREAU ARCHIVE

Ástralar halda Oliviu Newton-John veglega kveðjuathöfn

11.08.2022 - 06:15

Höfundar

Leik- og söngkonunni Oliviu Newton-John verður haldin vegleg kveðjuathöfn í Ástralíu þar sem hún ólst upp frá unga aldri. Þarlend stjórnvöld greindu frá þessu í morgun og sögðust vilja efna til kveðjuhátíðar fyrir Oliviu.

Olivia Newton-John fæddist í Cambrigde á Englandi 1948 yngst þriggja barna hjónanna Brinley og Irene Helene Newton-John. Þegar Olivia var sex ára flutti fjölskyldan til Melbourne í Ástralíu þar sem faðir hennar fékk stöðu við háskóla. 

Olivia Newton-John lést á mánudaginn en hún glíimdi við brjóstakrabbamein í þrjá áratugi. Dan Andrews, forsætisráðherra Viktoríuríkis, segir að fjölskylda söngkonunnar hafi samþykkt kveðjuathöfnina sem hann segir að verði líkari stórtónleikum en jarðarför.

„Það er vel við hæfi þegar minnast á jafn ríkulegrar ævi,“ segir Andrews. Enn hefur ekki verið greint frá hvenær athöfnin verður haldin. 

Olivia Newton-John byrjaði snemma að syngja, gefa út tónlist og hún lék í áströlskum sjónvarpsþáttum. Fyrsta stóra platan kom út 1971 en sú síðasta 2016. Hún var fulltrúi Bretlands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1974 með lagið Long Live Love þegar ABBA sigraði eftirminnilega.

Olivia lék í nokkrum fjölda kvikmynda en Íslendingar muna sennilega best eftir henni sem Sandy í Grease og Kira í Xanadu. Seinasta kvikmyndahlutverkið var í The Very Excellent Mr. Dundee þar sem hún lék á móti Paul Hogan, Chevy Chase og John Cleese. 

John Easterling, eftirlifandi eiginmaður Oliviu, þakkaði í morgun aðdáendum hennar fyrir hlýjar kveðjur og stuðning.

Hann sagði eiginkonu sína hafa verið einhverja hugrökkustu manneskju sem hann þekkti. Hún hefði á erfiðustu stundum lífsins haldið voninni, gleðinni og bjartsýninni á lofti.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Minning um Oliviu Newton-John

Norður Ameríka

Olivia Newton-John látin