Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Styttist í að hraun geti runnið að Suðurstrandarvegi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hraun gæti runnið í austurátt úr Meradölum á næstu klukkutímum eða sólarhringum og átt þaðan greiða leið að Suðurstrandarvegi.

Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

„Hraun er ekki farið að renna úr Meradölum, það er enn þar lokað inni. Hins vegar hefur á tveimur síðustu dögum hraunið við skarðið, sem er lægst út úr Meradölum að austan, hækkað um sjö til átta metra. Og það vantar kannski svona meter upp á að það flæði yfir. Þannig haldi þessi atburðarás áfram þá styttist í að hraun renni úr dölunum," segir Magnús Tumi. 

Magnús segir einnig að erfitt sé að segja til um hvort og hvenær hraun myndi ná að Suðurstrandarvegi. Til þess að meta ástandið þarf að fljúga yfir gosstöðvarnar í góðu skyggni, eitthvað sem ekki hefur verið hægt síðan síðasta fimmtudag. Vísindamenn reyna að fljúga yfir gosstöðvarnar á morgun.

„Þegar hraun fer að renna úr dölunum og ef það heldur áfram þannig þá leitar það í átt að Suðurstrandarvegi. En til að geta lagt eitthvað mat á tímalínuna í því þá þurfum við nauðsynlega á því að halda að geta gert nýjar mælingar á rúmmáli hraunsins og þarmeð flæðinu, hversu mikið það er. En veður hefur hamlað því alveg frá því á fimmtudag í síðustu viku," segir Magnús.

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið uppfærð.