Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sjósundmaður fannst látinn

10.08.2022 - 10:52
Mynd með færslu
 Mynd: Mohammad reza Fathian - Pexels
Maður, sem leitað var að úti fyrir Langasandi á Akranesi í gærkvöldi og nótt, fannst látinn eftir leit lögreglu og björgunarsveita.

Maðurinn hafði farið ásamt öðrum í sjósund út frá fjörunni í Langasandi á Akranesi en skilaði sér ekki og því var hafin leit. Um 50 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni ásamt lögreglu og þyrlu Landhelgisgæslunnar, en útkallið barst laust fyrir klukkan níu í gærkvöldi.

Ásmundur Kr. Ásmundsson, settur yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir í samtali við fréttastofu að staðurinn sé vinsæll sjósundsstaður við fjöruna við Langasand og margir syndi jafnan út frá Guðlaug, heitri baðlaug í fjöruborðinu.

Meðal þess sem varð til þess að maðurinn fannst voru merki frá farsíma hans. Talsverður fjöldi fólks var við sjósund og á ströndinni á meðan atvikið átti sér stað og hefur aðstandendum verið veitt áfallahjálp. 

sigurdurk's picture
Sigurður Kaiser
Fréttastofa RÚV