Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Pólítískir eldar loga vegna húsleitar á heimili Trumps

epa10113300 Haohao (R), a supporter of former President Donald Trump, protests outside Trump’s Mar-a-Lago residence, amid reports of the FBI executing a search warrant as a part of a document investigation, in Palm Beach, Florida, USA, 09 August 2022.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Háttsettir Repúblikanar flykktu sér að baki Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta eftir að alríkislögreglan gerði húsleit á heimili hans í Florída. Leiðtogar Repúblikana og Demókrata takast harkalega á um málið.

Nokkrir fyrrverandi ráðgjafar Trumps hvetja hann til að staðfesta umsvifalaust forsetaframboð sitt fyrir kosningarnar 2024. Trump sjálfur sagði húsleitina vera atlögu vinstri sinnaðra Demókrata sem vildu koma í veg fyrir framboð hans.

Mike Pence, fyrrverandi varaforseti Trumps lýsti þungum áhyggjum af aðgerðinni sem hann sagði lykta af flokkhollustu dómsmálaráðuneytisins. Karine Jean-Pierre, blaðafulltrúi Hvíta hússins segir Joe Biden forseta ekki hafa fengið tilkynningu um að til stæði að leita í híbýlum Trumps.

Hún sagði forsetann virða sjálfstæði dómsmálaráðuneytisins. Aðspurð um hvort til átaka gæti komið vegna málsins sagði hún ekkert rými vera fyrir pólítískt ofbeldi í Bandaríkjunum.

„Við erum ekki Rússland“

Öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham sem er stuðningsmaður Trumps sagði verulega vafasamt að hefja rannsókn á hendur fyrrverandi forseta þegar skammt væri til kosninga.

Þingmaðurinn Elise Stefanik sagði húsleitina marka dimman dag í sögu Bandaríkjanna. „Ímyndið ykkur hvað alríkislögreglan getur gert ykkur, þegar hún getur gert húsleit hjá fyrrverandi forseta,“ sagði hún á Twitter.

Ted Lieu, þingmaður Demókrata, brást við með því að spyrja hví lögreglan gæti ekki rannsakað mál tengdum fyrrverandi forseta. „Við erum ekki Rússland þar sem æðstu ráðamenn og stuðningsmenn þeirra eru hafnir yfir lög.“

Þingmaðurinn Scott Perry greindi frá því daginn eftir húsleitina að alríkislögreglumenn hefðu gert síma hans upptækann. Ástæður þess sagði hann að hefðu ekki verið tilgreindar sérstaklega. 

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sagði í samtali við NBC sjónvarpsstöðina að enginn Bandaríkjamaður væri hafinn yfir landslög. Húsleitin var gerð vegna gruns um að Trump hafi í óleyfi geymt trúnaðargögn Hvíta hússins frá forsetatíð sinni inni á heimili sínu.