Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Handtaka vegna morða á fjórum múslímum í Nýju Mexíkó

10.08.2022 - 07:04
epa08657928 Sheriff deputies stand behind police tape as protesters gather around the South Los Angeles Sheriff Station following the death of Dijon Kizzee in Westmont, South Los Angeles, California, USA, 09 September 2020. Kizzee was killed by Sheriff deputies on 31 August after being stopped for a vehicle code violation while riding his bicycle.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA - RÚV
Lögregla í Albuquerque, fjölmennustu borg Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum, segist hafa handtekið og ákært mann sem grunaður er um að hafa myrt fjóra múslíma í borginni. Viðamikil leit að morðingja mannanna hefur staðið yfir um hríð.

Morðin hafa vakið mikla skelfingu meðal múslíma í Albuquerque en í gær barst lögreglu vísbending sem leiddi til handtöku. Vísbendingin barst eftir að yfirvöld biðluðu til almennings um upplýsingar og birtu ljósmynd af bíl sem talinn er tengjast málinu.

Sá handtekni er ríflega fimmtugur afganskur innflytjandi, Muhammad Syed að nafni. Hann hefur verið ákærður fyrir tvö af morðunum fjórum. Lögregla greindi frá því á blaðamannafundi að rannsókn stæði enn yfir varðandi ástæður morðanna.

Ahmad Assed, leiðtogi Miðstöðvar Múslíma í Nýju Mexíkó kveður í samtali við New York Times að sér hafi borist upplýsingar um að morðinginn væri Súnní-múslími sem fylltist bræði eftir að dóttir hans ákvað að giftast manni úr hópi Sjíta. 

Meirihluti múslíma í heiminum eru Súnnítar sem urðu til við klofning íslam á sjöundu öld í súnní og sjíta. Afstaða súnní er sú að Múhammeð hafi verið síðasti spámaðurinn en að einhver skuli taka við veraldlegu hlutverki hans sem leiðtogi múslíma.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV