Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þrumur og eldingar á Suðurlandi í morgun

09.08.2022 - 13:34
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Þrumur og eldingar voru á Suðurlandi í morgun. Veður af þessu tagi er sjaldgæft, að sögn veðurfræðings.

Þrumuveðrið hófst austan við Selfoss stuttu fyrir klukkan níu og því lauk rétt eftir klukkan hálf tíu. Þrumur og eldingar verða á Íslandi á um þriggja mánaða fresti, en að sögn Marcel De Vries, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, var veðrið í morgun nokkuð öflugra en það sem gengur og gerist. Þrumuveður af þessu tagi verði aðeins um einu sinni á ári. 

„Í morgun fóru ský yfir landið til norðausturs og á bak við þau var óstöðugt loft. Þegar skýin komu að landi fyrir austan Selfoss myndaðist þetta þrumuveður,“ segir Marcel.

Hann segir að ástæðan fyrir þrumuveðrinu sé samspil milli óstöðugs lofts og lofts sem er rakt og hlýtt.

Veðurstofunni barst fjölda tilkynninga vegna veðursins, þá helst í kringum Heklu.

peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV