Lesbían talin hættuleg nemendum sínum

Mynd: Aðsend / Sara Dögg

Lesbían talin hættuleg nemendum sínum

09.08.2022 - 09:00

Höfundar

„Það voru foreldrar sem beittu sér gegn mér því að ég væri hættuleg nemendum mínum af því að ég væri lesbía,“ segir Sara Dögg sem fékk að kenna verulega á því að vera samkynhneigð þegar hún kom fyrst inn í kennarastarfið. Sem betur fer er meðbyrinn mikill í dag og samfélagið stendur þétt við bakið á hinsegin fólki.

Sara Dögg, bæjarfulltrúi í Garðabæ og verkefnisstjóri hjá Þroskahjálp, og Bylgja Hauksdóttir fiskútflytjandi hafa tekið virkan þátt í baráttu hinsegin fólks undanfarna áratugi. Þær segja frá sinni reynslu af því að koma út úr skápnum, erfiðleikum sem þær hafa mætt og Gleðigöngunni í gegnum tíðina. 

Stóra ættarmótið 

Hinsegin dögum var fagnað á dögunum og herlegheitunum lauk að venju með Gleðigöngunni. „Þetta er risahátíð. Við tölum um þetta, hinsegin fjölskyldan, sem stóra ættarmótið,“ segir Sara Dögg í samtali við Gunnar Hansson og Guðrúnu Gunnarsdóttur í Sumarmálum á Rás 1.  

„Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur, þetta eru endurfundir á hverju ári og allir gleðjast og fara yfir stöðuna hverju sinni,“ segir hún. „Þetta er auðvitað risastórt mál fyrir samfélagið allt að við séum saman í þessari baráttu. Það er stóra eintakið í þessu, að við séum að gera þetta saman, að við séum að taka utan um öll sem tilheyra hinsegin samfélaginu.“ 

Ósýnileikinn gerir þig vanmáttugan og valdalausan 

Sú orðræða sem myndast hefur í garð kynsegin og trans fólks svipar mjög til þeirrar sem samkynhneigt fólk mátti heyra fyrir aldamót. „Þetta er í rauninni sama málið, það er þessi upplifun að tilheyra ekki, að það sé ekki talað um þig. Þú ert hvergi með í flórunni, öllu jöfnu,“ segir Sara Dögg. „Það gerir þig vanmáttugan og valdalausan og það svolítið einangrar hópinn hverju sinni.“ 

„Þetta er eitthvað sem við upplifðum, hommar og lesbíur, þegar ég var að koma úr felum,“ segir hún. Í þá daga hafði hún varla heyrt á samkynhneigt fólk minnst. Þessi ósýnileiki sé ein helsta hindrun kynsegin og trans fólks í dag. „Þetta er hið mannlega eðli, hver sem þú ert, ef það er aldrei talað um þig eða við þig á þínum forsendum, þá er það pínu skrítið.“ 

„Kem mér út úr skápnum og geri allt vitlaust“ 

Bylgja ólst upp á Siglufirði og þegar hún kom út úr skápnum 25 ára sagði hún upp vinnunni og flutti til Reykjavíkur. Hún telur sig þó hafa vanmetið samfélagið sem hún bjó í. „Ég held að það hafi ekki verið neitt mál að koma út úr skápnum þar, ég hef aldrei fundið fyrir fordómum eða nokkrum sköpuðum hlut.“ 

„Kannski var þetta bara vitleysa, kannski hefði ég bara átt að vera heima á Sigló,“ bætir hún við. Hún flutti þó ekki eingöngu vegna þessa heldur var hún búin að vinna sig upp eins langt og hún gat hjá frystihúsinu, var orðin yfirverkstjóri, og langaði að gera eitthvað annað. Henni bauðst vinna hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og ákvað að slá til. „Ég hugsaði bara með mér, já ég hendi mér ein bara til Reykjavíkur, kem mér út úr skápnum og geri allt vitlaust,“ segir hún glettin.  

„Þetta er náttúrulega bara sjúkdómur“ 

Henni þótti erfitt að taka skrefið og segja foreldrum sínum frá kynhneigð sinni og fékk systur sínar með sér í lið en í ljós kom að hún þurfti ekkert að óttast. „Pabbi var æðislegur. Hann sagði við Báru systur: Já, já, þetta er bara eðlilegt. Það er önnur hver fjölskylda sem lendir í þessu, þetta er náttúrulega bara sjúkdómur,“ segir Bylgja og hlær. Hann hafi verið mjög skilningsríkur og sagðist vera glaður yfir því að hún væri glöð, það væri aðalmálið. 

„Þetta var rosalega mikill feluleikur“ 

Sara Dögg var 18 ára þegar hún kom út úr skápnum. Hún var stödd í Reykjavík í framhaldsskóla en er frá Reykhólum. „Maður var mikið einn. Ég átti engar vinkonur sem voru lesbíur eða vini sem voru hommar,“ segir hún. „Svo ég kom svolítið ein inn í þennan samkynhneigða heim sem þá var.“ 

Hún rifjar upp að þegar hún fór að venja komur sínar í Samtakahúsið þurfti að vera myrkur úti svo það myndi örugglega enginn sjá hvert hún væri að fara. „Umræðan var svo stutt komin, þetta var rosalega mikill feluleikur þó manni langaði það ekki.“ 

„En eins og Bylgja segir, ég held vissulega að við séum að vanmeta pínulítið okkar nánustu og okkar vini varðandi hvernig fólk tekur manni,“ segir Sara Dögg. „En ég held að það sé eðlilegt, þetta er svolítil opinberun og þú vilt öryggi og vilt auðvitað getað treyst fólki fyrir þér og það er óþægilegt að vita ekki hvort þú getir gert það.“ Það sé alltaf þröskuldur að stíga út úr skápnum og segja frá. „Það er eitthvað sem ég held að allir fari í gegnum, alveg óháð því hversu opin umræðan er í samfélaginu.“  

Hún veltir fyrir sér af hverju fólk geri ráð fyrir að samfélagið taki manni illa, hvort það séu innbyggðir fordómar. „Er það eitthvað í mér sem veldur því að ég er kannski með einhverja fordóma sjálf gagnvart mér eða að vera hinsegin?“  

„Ég fæ enn þá gæsahúð þegar ég hugsa til þess“ 

Sara Dögg telur að Hinsegin dagar hafi haft mikil áhrif á umræðuna í samfélaginu og hvernig fólk talar um hinseginleikann. Fyrir það hafði umræðan verið alfarið í höndum Samtakanna ‘78 sem tókst á við þungu málefnin og barðist fyrir réttindum hinsegin fólks. Hinsegin dagar einblíndu frekar á dægurmál og gleðina. 

Þegar fyrstu Gleðigöngurnar voru farnar upp úr aldamótum báðu Samtökin verslunareigendur á Laugaveginum að skreyta með regnbogafánanum en það var ekkert hlaupið að því. „Í upphafi fyrstu gangnanna vorum við að peppa hvort annað upp í að vera fánaliðið,“ segir Sara Dögg. Flestir hafi verið áhugasamir og viljað leggja þeim lið en margir hafi líka afþakkað hreint út.  

„Breytingin verður þarna. Því svo kemur þessi risastóra ganga,“ segir Sara. „Ég fæ enn þá gæsahúð þegar ég hugsa til þess, maður gekk fyrir hornið á Hlemmi og sá mannfjöldann á Laugaveginum.“ Árinu áður höfðu tólf þúsund manns mætt á gönguna sem þá taldist nokkuð gott. „En svo varð þarna umbylting og það var talað um tugi tugi þúsunda.“ 

„Þetta var svo ofboðslega tilfinningaþrungið og mikið, að finna samstöðuna hjá almenningi heilt yfir,“ segir hún.  

Hafa lært af reynslunni og standa saman  

Bakslag hefur þó orðið og háværar raddir heyrast í samfélaginu sem snúa að kynsegin og trans fólki. Þetta sé vegna þess að eitthvað nýtt er að koma fram, eitthvað sem fólk er óvant. „Við erum að viðurkenna fleiri, fólk er að upplifa sig mjög ólíkt,“ segir Sara Dögg og telur alvarlegt að hinsegin ungmenni verði oft fyrir barðinu á ofbeldi. „Þetta er eitthvað sem við þurfum að taka alvarlega og huga að og finna út úr hvernig við ætlum að stíga niður fæti og berjast gegn því,“ segir hún. Þegar fólk ber sig á annan hátt og leyfir sér að klæðast öðruvísi og virkilega sýna sig far einhverjum að finnast það óþægilegt og byrja að berjast gegn því. 

Sem betur fer hefur hinsegin samfélagið tekið höndum saman og brugðist harkalega við. „Ég held að við höfum líka lært af reynslunni vegna þess að það hafa ekkert alltaf allir verið góðir vinir innan samtakanna og fólk tekist á því það upplifir sig öðruvísi. En ég held að við séum svolítið búin að læra af þeirri reynslu og við vitum bara að við verðum að standa saman.“  

„Sem betur fer eru fleiri raddir sem láta í sér heyra þannig að þessir fáu sem eru kannski að reyna að beita, ég myndi bara segja ofbeldi. Við reynum bara að keyra það í kaf,“ segir Sara.  

„Hvar er maðurinn þinn?“ 

Bylgja starfar við fiskiútflutning og segir að þar hafi lítið breyst, hún sé enn spurð að því hvort maðurinn hennar sé ekki með henni þegar hún fer á ráðstefnur og annað slíkt. Henni hafi alltaf fundist óþægilegt að fá spurninguna en ekki vegna þess að henni sjálfri liði illa heldur vissi hún að viðkomandi fengi sjokk þegar hún segði þeim að hún væri lesbía.  

Í dag þekkir hún flesta í bransanum og fólk veit í hvaða liði hún spilar en spurningin ber þó enn á góma. „Þetta er karlaheimur en ég hef aldrei fundið fyrir fordómum. Ég er bara ótrúlega heppin með það,“ segir Bylgja og bætir við að Sara Dögg hafi mætt mun meira mótlæti en hún. „Hún er atvinnulesbía eins og ég segi, hún er út á við og ég inn á við,“ bætir hún við sposk.  

Lesbían talin hættuleg börnum 

„Ég fór í gegnum mjög mikla fordóma þegar ég var að útskrifast sem kennari og taka mikinn þátt í undirbúningi Hinsegin daga og vera starfsmaður hjá samtökunum á sama tíma og vera koma inn í kennarastarfið,“ segir Sara Dögg sem fékk að kenna verulega á því. „Það var óvænt og erfið reynsla.“ 

Hún hafi átt erfitt með að trúa því að þetta skyldi gerast því hún taldi sig vera stadda í nútíma þar sem ekki væri von á slíku. „En það voru foreldrar sem beittu sér gegn mér því að ég væri hættuleg nemendum mínum af því að ég væri lesbía,“ segir hún. 

„Mig langaði að það væri hlutverk mitt sem kennari að geta verið opin lesbía og geta tekið þessa slagi,“ segir hún. „En það getur stundum verið erfitt, en mikilvægt.“  

Heiður að fá að bera fána 

Þær Sara Dögg og Bylgja mættu að sjálfsögðu í Gleðigönguna. Þeim þykir það alltaf hátíðlegt og heiður að fá að bera stóru fánana í fánaborginni. „Það er eitthvað alveg ofboðslega hátíðlegt við það, ég segi alltaf já takk þegar ég fæ það boð,“ segir Sara.  

Rætt var við Söru Dögg og Bylgju Hauksdóttur í Sumarmálum á Rás 1. Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.