Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Efling ekki staðið skil á skattgreiðslum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þórdís Arnljótsdótti - RÚV
Stéttarfélagið Efling hefur ekki staðið skil á skatt- og lífeyrisgreiðslum starfsmanna frá því fjármálastjóri félagsins hætti störfum í byrjun sumars.

Fréttastofa hefur rætt við hóp fyrrverandi starfsmanna, sem fá enn greidd laun vegna uppsagnarfrests. Þeir segja að það hafi uppgötvast í gær að engar opinberar greiðslur hafi borist skattinum og lífeyrissjóðum frá því í maí, þrátt fyrir að greiðslurnar hafi sannarlega verið dregnar af launum starfsfólks.

Atvinnurekendum ber að skila skattgreiðslum til Skattsins eigi síðar en 15. dag næsta mánaðar. Þetta þýðir að skattur fyrir júnímánuð ætti að berast í síðasta lagi 15. júlí. Háar sektir eru við því, fyrir atvinnurekendur, að skila of seint.

Í skriflegu svari til fréttastofu staðfestir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, að gjöldin hafi ekki skilað sér á áfangastað vegna mistaka, en Efling útvistaði nýverið greiðslu launa til bókhaldsfyrirtækis eftir að hafa áður verið með fjármálastjóra innanhúss.

Sólveig á von á því að málið verði leyst hratt og vel sem fyrst.

Klaufalegt fyrir félag sem vill vera fyrirmynd

Ragnheiður Valgarðsdóttir er fyrrverandi trúnaðarmaður á skrifstofu Eflingar og ein þeirra sem fær nú greidd laun vegna uppsagnarfrests. Hún segir ljóst að þetta sé handvömm hjá félaginu. Þetta sé klaufalegt fyrir félag sem vilji vera fyrirmynd fyrir góða atvinnurekendur.

„Maður getur rétt ímyndað sér hver viðbrögðin hefðu orðið [hjá forystu Eflingar] ef þetta hefði komið upp hja öðrum atvinnurekanda,“ segir hún.

Til skammar að sjóðir félagsmanna fari í sektir

Gabríel Benjamin, fyrrverandi starfsmaður og túnaðarmaður Eflingar, telur mistökin til marks um ástandið á skrifstofu félagsins eftir að öllum starfsmönnum þar var sagt upp. Reglulega heyrist til að mynda sögur af félagsmönnum Eflingar sem eiga í erfiðleikum með að fá erindum sínum sinnt. „Efling er að haga sér eins og hinn versti atvinnurekandi.“

Gabríel segir þau hafa uppgötvast í gær þegar starfsmenn tóku eftir því að á innri vef skattsins voru engar upplýsingar um skattgreiðslur þeirra fyrir júnímánuð þrátt fyrir að skattarnir hafi verið dregnir af launum. Hann hafi strax haft samband við VR, sem er hans stéttarfélag, og í kjölfarið hafi margir starfsmenn sett sig í samband við Skattinn.

Hann segir að í gegnum stjórnarskiptin hafi Sólveig Anna ítrekað talað um að allt væri vel skipulagt og úthugsað, en hér sannist enn einu sinni að fagmennskan sé víðs fjarri. „Þær sektir sem Efling mun þurfa að borga koma úr sjóðum félagsmanna, og það er til skammar,“ segir Gabríel, sem hefur áður farið hörðum orðum um Sólveigu Önnu og hennar stjórnunarhætti.