Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Börn undir 12 ára aldri mega ekki ganga að gosinu

09.08.2022 - 10:01
Fólk að skoða eldgosið í Meradölum
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Börnum undir tólf ára aldri verður meinaður aðgangur að gosstöðvunum í Meradölum vegna aðstæðna. Almannavarnir og aðrir viðbragðsaðilar komu saman til fundar í morgun þar sem þessi ákvörðun var tekin.

Lokað er á svæðinu í dag vegna veðurs en lokað hefur verið að gosstöðvunum frá því á sunnudag.

„Það kannski kom fram helst á þessum fundi að ég geri ráð fyrir því að við herðum aðgang barna undir tólf ára aldri inn á gossvæðið, þegar við opnum næst,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við fréttastofu.

„Þetta hefur verið vandamál og við þurfum einhvern veginn að vinna á því og ég hef ákveðið að gera það með þessum hætti.“

Segist ekki eiga von á að sjá ferðamenn í dag

Í gær virti fólk fyrirmæli almannavarna að vettugi en Úlfar segist ekki eiga von á því að sjá ferðamenn við gosstöðvarnar í dag.

„Við erum í raun og veru bara með betri og meiri lokanir, þá fyrir utan gossvæðið sjálft og ég geri ráð fyrir því að það verði ekki margir ferðamenn sem sýna sig inni á svæðinu í dag“

rebekkali's picture
Rebekka Líf Ingadóttir
Fréttastofa RÚV