Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Pólitísk ólga í Noregi vegna orkuverðs

08.08.2022 - 20:19
Mynd: Ljósmyndari: Karen Marie Straum / NVE.no
Það er órói í Noregi vegna hás orkuverðs. Fyrirtæki landsins þurfa oft að borga jafnvirði 70 íslenskra króna fyrir kílóvattstundina. Norsk fyrirtæki missa smátt og smátt forskotið sem þau hafa haft á evrópsk fyrirtæki vegna hagstæðs orkuverðs. Og þessu fylgir krafa meðal flokka bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, að eitthvað verði gert í málinu – en það er ekkert samkomulag um hvað beri að gera.

Krísa en ekki orkuskortur

Allir tala um krísu – eða raforkukreppu – sem veldur því að raforkuverð er þrisvar til fimm sinnum hærra en fólk hér átti að venjast til skamms tíma – eða bara síðan í fyrra. Þetta veldur ekki beinlínis jarðskjálfta heldur stöðugum pólitískum púlsóróa. Það gæti gosið hvenær sem er, soðið upp úr pottunum í hinu pólitíska eldhúsi. Þar á meðal eru flokkar í ríkistjórn ósammála um hvað beri að gera. Þess vegna hefur verið boðað til krísufunda á þingi og í ráðuneytunum. Og Jónas Gahr Störe forsætisráðherra kallaður á teppið bæði í fjölmiðlum og þingsölum. Hann var spurður í ríkisútvarpinu hvaða krísa þetta væri: Það er krísa á evrópskum orkumarkaði vegna stríðsins í Úkraínu, sagði forsætisráðherra og það er ekki orkuskortur meðan enn er nóg í uppistöðulónunum.

Gagnrýnendur vildu bæta við að krísan er líka vegna þess að norska raforkunetið sunnan Dofrafjalla er núna beintengt við evrópska raforkukerfið með sæstrengjum. Það þýðir að raforkuverið fylgir hinu evrópska orkuverði sem sögulega séð hefur verið mun hærra en hið norska. Norðan Dofrafjalla er orkan enn á lága verðinu vegna þess að raforkunetið þar er illa tengt við evrópska markaðinn.

Orkuverð verður hátt áfram segir Störe

En forsætisráðherra er ekki í vafa um að verð á rafmagni fellur ekki í bráð, bæði vegna þess að stríðið getur varað lengi og að það geta orðið þáttaskil í norsku atvinnulífi vegna þess að raforkuverð verður hærra á komandi árum hvað sem stríðinu í Úkraínu líður.

Krísan er sem sagt margþætt. Hluti vandans er raforkuverð til almennings. Þar má þó heita friður að kalla því ríkisstjórinn hefur frá því vor niðurgreitt orkureikninga venjulegs fjölskyldufólks til að mæta hækkuðu raforkuverði. Rafmagnsreikningur almúgans hefur því ekki hækkað nema um 10 eða 15% eða svo. Markaðsverð hefur hins vegar nú síðsumars verið á rólinu 50 til 70 krónur – mælt í íslenskum krónum. Það er verðið sem fyrirtækin borga – og þar er vandinn óleystur núna. Þetta leiðir af sér kröfu um niðurgreiðslu á rafmagni til fyrirtækja. Að öðrum kosti blasi gjaldþrot við.

Forsætisráðherra útilokar ekki gjaldþrot; Við verðum bara að þola að einhver fyrirtæki fari í þrot í hagkerfi sem annars gengur mjög vel, sagði Störe í umræðuþætti í ríkisútvarpinu.

Flokkar bæði í stjórn og stjórnarandstöðu vilja að markaður ráði

Og þótt merkilegt megi heita þá er Hægri flokkurinn, flokkur Ernu Sólberg fyrrum forsætisráðherra, á sömu línu og Verkamannaflokkur Störes forsætisráðherra. Tveir stærstu flokkar í stjórn og stjórnarandstöðu vilja fara sér hægt í stýra aðstæðum á raforkumarkaði. Láta markaðinn ráða orkuverðinu og grípa ekki inn í nema að það verði orkuskortur og skömmtun á rafmagni. Höfuðandstæðingarnir eru sammála um að gera ekkert í málinu núna, setja það í nefnd og skoða það aftur eftir hálfan mánuð.

Flokkar bæði í stjórn og stjórnarandstöðu vilja að ríkisstjórnin grípi inn í

Í þessu efni eru aðrir flokkar bæði í stjórn og stjórnarandstöðu á allt öðru máli. Þar er órói vegna orðuverðsins. Þar er vilji til að loka fyrir allan útflutning á rafmagni og koma orkuverðinu undir opinbera stjórn. Orkufyrirtækin, sem reyndar eru flest í eigu ríkis og sveitarfélaga, græða vel við núverandi aðstæður, og hafa aldrei áður skilað svo miklum hagnaði.  Markaðurinn virkar vel séð frá sjónarhóli seljenda orkunnar og eigenda sæstrengja og raflína. Kaupendurnir kvarta.

Þarna hefur slíka sitt að segja að meðan kófið varði og pestin gekk voru búnir til krísupakkar fyrir atvinnulífið. Eftir á að hyggja virðast þeir hafa verið óþarfir. Sama gæti gilt um krísupakka vegna raforkuverðs.