Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Björgunarsveitir leita af sér allan grun við gosstöðvar

Björgunarsveitir á suðvesturhorni landsins leituðu síðdegis að göngufólki við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga, sem villtist til og frá Meradölum. Þrátt fyrir að lokað hafi verið í dag vegna veðurs hefur fólk ætt af stað, misjafnlega búið, og fer ekki að tilmælum björgunarsveita að snúa við.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að tveir hópar fólks, um tíu manns, hafi villst og verið í vandræðum. Á sjötta tímanum tókst að koma því í bíla björgunarsveita. Nú er unnið að því að leita af sér allan grun hvort fleiri séu á svæðinu.

Davíð segir að svartaþoka sé á svæðinu, eins og sést á vefmyndavélum, og ítrekar að svæðið er búið að vera lokað í dag. Ítrekað er að fólk sé hvatt til að fylgja ráðleggingum og bíða með ferðar að gosstöðvunum þangað til svæðið opnar aftur.

Þurfi ekki að fara langt til að lenda í slagveðurs rigningu

Þrátt fyrir það sé lokað í dag hefur fólk ætt af stað, misjafnlega búið, eins og Haukur Holm fréttamaður komst að þegar hann kynnti sér aðstæður eftir hádegið.

„Það má eiginlega segja að það sé nánast stríður straumur eftir þessari gönguleið og þetta virðist vera nær eingöngu útlendingar, erlendir ferðamenn,“ sagði Haukur í síðdegisfréttum klukkan fjögur.

Hann segir að við upphaf leiðarinnar virðist veðrið vera þokkalegt, en það þurfi ekki að fara langt eftir gönguslóðanum til þess að lenda í slagveðurs rigningu og síðan eftir því sem ofar dregur í blindaþoku.

Fréttin var uppfærð klukkan 18.05.