Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Par með ung börn hætt komið við gosið í gær

07.08.2022 - 15:21
Mynd með færslu
 Mynd: Hermann Valsson
Erlendir ferðamenn með tvö börn um leikskólaaldur voru hætt komnir við gosstöðvarnar í Meradölum í gær. Parið var örmagna og börnin tvö komin að ofkælingu.

Hermann Valsson leiðsögumaður kom að fólkinu og kallaði á aðstoð. Hann segir að fjölskyldufaðirinn hafi reynt að biðjast undan aðstoð viðbragðsaðila af ótta við mögulegan kostnað.

Hermann mætti fólkinu þegar það var á leið til baka frá gosstöðvunum. Honum sýndist hann sjá mann sem klyfjaður væri farangri bæði að framan- og aftanverðu og ákvað að fikra sig nær. Í sömu svipan sá hann að þar færi maður með barn í burðarstól á bakinu auk þess sem hann hélt á öðru barni í fanginu. Hermann segir að stórgrýtt sé á því svæði sem hann mætti fólkinu og rigningarúði gerði grjótið afar hált. Illa færi ef manninum skrikaði fótur.

„Og ég bara hrekk við og hugsa með sjálfum mér: „Hvað er að gerast?” Vegna þess hvað það var erfitt að ganga og hvað það var erfitt að fóta sig og þarna var hann með líknarbelg, eins og við erum með í bílnum, fyrir framan sig - það er að segja barnið sitt. Og það er alveg út úr kortinu,” segir Hermann við fréttastofu.

Var hræddur við kostnað

Hermann segist fljótlega hafa séð að fólkið væri að niðurlotum komið og börnin sömuleiðis. Annað barnið hafði sofnað af þreytu, að sögn Hermanns, en hitt grét. Hermann ákvað strax að grípa inn í og gerði nærstöddum björgunarsveitarmönnum viðvart, sem komu og tóku börnin í fangið. Faðir barnanna var þakklátur fyrir aðstoðina, segir Hermann, en óttaðist þó að hann yrði sektaður fyrir eða þá að björgun sem þessari fylgdi einhver kostnaður.

„Hann þakkaði fyrir hugulsemina en hann hafði miklar áhyggjur af því hvað þetta myndi kosta. Hann hafði áhyggjur af því hvort við þessu væru sektir. Þetta lýsir bara þekkingarleysi okkar góðu gesta á innviðum Íslands og hvernig við vinnum. En þau vissu ekkert hvað þau voru að fara út í.”  

Þeir sem þurfa á aðstoð björgunarsveita hér á landi greiða ekkert gjald fyrir það. Hermann segir að það skipti miklu máli að erlendir ferðamenn sem hingað komi séu meðvitaðir um þetta. Fólkinu var bjargað við illan leik þegar björgunarsveitarmenn komu og sóttu það á ökutækjum. 

Hissa á viðbrögðum lögreglu

Hermann segir þó að viðbrögð lögreglu hafi komið sér hvað mest á óvart. Þegar hann kom aftur að bílastæðinu við upphaf gönguleiðarinnar að gosinu spurði hann lögreglukonu hvort hann ætti að gefa skýrslu vegna málsins. Það fannst henni ekki þurfa enda ekki hægt að koma í veg fyrir „heimskulegar athafnir" sumra. 

Hermann segir þetta lýsa vanvirðingu við þá erlendu ferðamenn sem hingað koma og þá auðlind sem ferðamannaiðnaðurinn er. Hann segir að það sé ábyrgð heimamanna að taka vel á móti gestum og ganga úr skugga um að þeir séu meðvitaðir um hættur í íslenskri náttúru. Hann segir einnig að á sínum ferli sem leiðsögumaður sé langalgengast að slys og óhöpp verði á leið til baka frá þeim áfangastöðum sem gengið er að. Því þurfi að koma fólki í skilning um það, áður en það leggur af stað að sjá eldgosið í Meradölum, að sú ganga sé engin skemmtiganga. 

„Það er bara staðreynd að nánast öll slys sem verða á ferðalögum eða í fjallamennsku, þau eiga sér stað á leiðinni niður eða á leiðinni frá þeim stað sem þú ætlaðir að skoða. Því þá ertu orðinn lúinn, einbeiting fer minnkandi af því þú ert búinn að ná markmiðinu, búinn að ná tindinum eða sjá gosið,” segir Hermann.