„Líður eins og þetta hafi komið fyrir einhvern annan“

Mynd: Innsend / Innsend

„Líður eins og þetta hafi komið fyrir einhvern annan“

07.08.2022 - 09:00

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Steingrímur Teague kynntist Halldóri Guðmundssyni rithöfundi þegar sá síðarnefndi réð hann til vinnu á bókamessunni í Frankfurt fyrir rúmum áratug. „Ég held ég hafi tekið upp á því hjá sjálfum mér að mæta með bindi því mér fannst svo gaman að vera í skrifstofuvinnu,“ rifjar hann upp um þennan óvanalega tíma.

Tónlistarmaðurinn Steingrímur Teague og rithöfundurinn Halldór Guðmundsson hafa þekkst í um þrettán ár. Þeir mættust í listamannaspjalli í Tengivagninum á Rás 1 þar sem Halldór þurfti að setja örlítinn fyrirvara áður en viðtalið hófst. „Ég verð að vísu að segja eitt í upphafi; ég myndi aldrei nota orðið listamaður um sjálfan mig þó ég hafi skrifað nokkrar bækur.“

Vantaði mann til aðstoðar við gerð heimasíðu

Félagarnir kynntust þegar Halldór réð Steingrím í vinnu hjá sér á bókamessunni í Frankfurt. „Það var þegar við vorum að vinna að verkefninu þar sem Ísland var heiðursgestur. Það var mjög snúið að því leyti að þegar við vorum að byrja fór landið á hausinn og allt sem við áttum að fá af pening rýrnaði um helming,“ rifjar Halldór upp. „En það var gott að því leyti að ráðamenn höfðu engin tök á eða tíma til að skipta sér neitt að okkur. Þau voru bara að reyna að sigla þessari þjóðarskútu og forða henni frá strandi. Við gátum gert það sem við vildum og mig bráðvantaði mann til aðstoðar við gerð heimasíðu.“

Spiluðu þróaða kvöldverðartónlist fyrir gesti

Þá rak á fjörur þeirra þessi tvítyngdi tónlistarmaður sem þótti tilvalinn í það verkefni að enska textana fyrir síðuna. Fyrr en varði var hann þó kominn í mun fleiri verkefni því að í ljós kom að hann gat allt, að sögn Halldórs. „Við vorum með stóran skála og mikið af áhorfendum og gestum og þá var svona happy hour þar sem Steini bjó til hljómsveit og spilaði gömul íslensk dægurlög. Þeir voru í þróaðri dinnermúsík.“

Mætti með bindi á skrifstofuna en endaði á hljómborðinu

Steingrímur man þessa tíma vel enda var fyrsta platan með hljómsveit hans Moses Hightower að koma út á svipuðum tíma. „Ég man að mér fannst mjög spennandi að vera að vinna á skrifstofu, vera með kaffistofu og ég held að stundum hafi ég tekið upp hjá sjálfum mér að mæta með bindi því mér fannst það svo gaman, að vera í skrifstofuvinnu,“ segir hann glettinn. „Ég var smá menntaður í bókmenntum en hafði endað á því að flestar vinnur höfðu falist í að spila. Þarna var ég staddur í átaki þar sem ég ætlaði að vinna á skrifstofu helst. Svo endaði ég á að spila þar líka.“

Finnst eins og þetta hafi komið fyrir einhvern annan

Gestir á bókmenntahátíð í Frankfurt fögnuðu spilamennskunni. „Þetta var geggjaður salur og heljarinnar stemning í kringum þetta,“ segir hann. Halldór tekur undir: „Það sem var skemmtilegt, fyrir utan að vera í heiðarlegri skrifstofuvinnu, var að við lentum í ýmsu,“ segir hann. Steingrímur var þá meðal annars að lesa yfir enskar þýðingar á Jóni Kalman og vinnubrögðin heilluðu marga. „Útgefandinn hringdi stundum í mig og spurði um the extraordinary young scholar,“ segir Halldór um Steingrím.

„Það er mjög langt síðan þetta var, mér líður í dag eins og þetta hafi komið fyrir einhvern annan. En ég var í bókmenntafræði og þá var tónlist svolítið mikið það sem ég gerði til að vinna fyrir mér. Maður var að spila á mannamótum, í brúðkaupum og á fyrirtækjaárshátíðum,“ segir hann. „Bókmenntir voru nokkuð sem maður sér í hyllingum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarsson - RÚV
„Ég myndi aldrei nota orðið listamaður um sjálfan sig þó ég hafi skrifað nokkrar bækur,“ segir Halldór Guðmundsson

Galdraði fram stórkostleg lög þegar leið á kvöldið

Halldór segir að tónlistarhæfileikar Steingríms hafi oft komið sér vel í bókmenntabransanum. „Einhvern tíma vorum við að halda partí og ég ætlaði að útvega hljómborð en fann ekki neitt. Þá kom ég með Casio hljómborð og alveg var Steini búinn að galdra fram á þetta stórkostleg lög þegar leið á kvöldið.“

„Þetta er dásamleg hljómsveit“

Moses Hightower hefur nú sent frá sér fjórar stúdíóplötur, eina endurhljóðblöndun og eina lifandi útgáfu. Tólf ár eru frá því fyrsta platan kom út og nú stendur til að rifja upp fyrstu lögin því sveitin ætlar að halda tónleika þar sem leikin verða lög af öllum ferlinum.

Halldór á allar plötur sveitarinnar enda hrifinn af tónlistinni. „Þrátt fyrir nútímaleikann er áhersla á texta og það eru talsverðar rætur í soul, blues og jafnvel djass. Þetta sambland hefur mér alltaf þótt virka fádæma skemmtilega hjá þeim og það byggist líka á alvöru hljóðfærakunnáttu, ekki bara að bjarga sér fyrir horn í stúdíóum,“ segir Halldór. „Þetta er dásamleg hljómsveit.“

Steingrímur skýtur því inn að reyndar hafi fyrsta platan orðið þannig til að aðeins um tvö lög hafi verið tilbúin fyrir upptökur. „Við vorum gjörsamlega að bjarga okkur í stúdíóinu allan tímann,“ segir hann. „En eins og með alla list þá heyrir maður það ekki og það er það sem skiptir máli,“ svarar Halldór.

Velta sér upp úr eymdinni

Steingrímur nýtur þess að vera í stúdíói en ekki síður að spila fyrir fólk og syngja. „Það er með því skemmtilegra sem hægt er að gera í þessari tilveru,“ segir hann. Lögin semji hann til þess að fá þá umbun að fá að taka þau upp og flytja fyrir áhorfendur. „Það er alltaf miklu auðveldara fyrir okkur að gera tónlistina. Við veltum okkur upp úr eymdinni miklu meira þegar við erum að semja texta,“ segir hann.

Orðlaus list sem þarf ekki túlkun

Halldór spilaði á píanó þegar hann var yngri en vill ekki gera mikið úr þeirri kunnáttu sinni. Hann segist þó hlusta mikið á tónlist, ekki síst djass. Hann væri þó til í að geta flutt hana og samið líka. „Alla mína ævi hef ég unnið við að koma textum á framfæri við Íslendinga eða útlendinga og stundum öfundast maður út í tónlistina því hún er þessi orðlausa list sem þarf ekki túlkun,“ segir hann. „Halldór Laxness sagði að hún væri æðst lista vegna þessarar orðlausu fegurðar en það er ekki síður skemmtilegt út frá sjónarmiði textamannsins að skynja þetta sambland sem Steini var að lýsa. Þó hann hafi ljóstrað upp um að þetta sé allt tilviljanakennt þá er ég ekki að trúa því.“

Þá gildi það um tónlist eins og aðra sköpun að mikilvægast sé að vera óhræddur við að fara yfir landamæri. „Þetta gildir um alvöru listamenn, það er forvitni og ástríða. Þetta eru forsendur allrar listsköpunar, ekki halda að þú hafir séð og heyr allt áður,“ segir hann. „Gera það þannig að hlustandinn eða lesandinn finni að þú vilt segja þetta og vilt koma þessu á framfæri.“

„Líður eins og ég sé að fá mér mikið kaffi“

Það er nóg um að vera hjá Steingrími sem bæði er að fara að spila á fyrirhuguðum Moses Hightower-tónleikum í nóvember en svo var hann að gefa út nýja djassplötu sem heitir More Than You Know sem hann gerði ásamt Silvu Þórðardóttur. „Þar erum við nánast bara tvö og ég er að spila á rafpíanó. Svo er eitt bassaklarinett sem mætir allt í einu en annars eru þetta naumhyggjulegir standardar. Ég lærði að spila djass en hef ekki litið á mig sem djassspilara því ég hef aldrei gert djassplötu til dæmis,“ segir hann. Og á þeirri plötu hélt samstarf Steingríms og Halldórs áfram. „Platan kom á vínyl í byrjun sumars og ég fékk Halldór Guðmunds til að skrifa aftan á hana.“

En þó Steingrímur sé mikið á þeytingi finnst honum ekki sem hann nái aldrei að setjast niður. „Mér líður samt eins og ég sé að fá mér mikið kaffi.“

Reyndi að gera texta sem væru sæmilegir

Steingrímur segir mögulegt að bókmenntaþekkingin rati eitthvað í textasmíðarnar en það sé þó ekki meðvitað. „Staðreyndin er að maður kemst ekkert í kringum það að ég var að vinna á bókmenntaskrifstofu þegar við vorum að gera þessa texta og ég var að hraðsjóða þýðingar á mörgum ljóðum á dag og hafði ekki tíma til að pæla hvort það væri eitthvað varið í þetta,“ segir hann. „Maður var í einhvers konar þjálfun en ég get lofað að það var engin dýpri ásetningur, maður var bara að reyna að gera texta sem væru sæmilegir.“

Vildi stundum að höfundur gæti skrifað bók sem jafnaðist á við káputextann

Halldór segir að það hafi verið mikill heiður að fá að skrifa texta á jafnágæta plötu og plata þeirra Steingríms og Silvu. Hann er reyndar vanur því að skrifa knappa texta - en á bókakápur. „Ég held að fáir á landinu hafi samið fleiri káputexta en það var færibandavinna þegar ég var útgefandi,“ segir Halldór sem þó vandaði alltaf til verka og var oft ánægður með afurðina. „Stundum var maður svo helvíti ánægður með það að maður hugsaði mikið helvíti vildi maður að höfundur gæti skrifað bók sem jafnaðist á við þetta,“ segir hann og hlær.

Rætt var við þá Steingrím Teague og Halldór Guðmundsson í Tengivagninum á Rás 1. Hér má hlýða á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.