Viðrar ágætlega til gleðigöngu

06.08.2022 - 09:06
Úr fyrstu gleðigöngu Vesturlands í Borgarnesi
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Spár gera ráð fyrir hægri breytilegri átt og skýjaveðri á landinu í dag en lítisháttar vætu sums staðar. Bjartviðri norðaustanlands þó fyrri part dagsins í dag.

Allvíða eru líkur á þokulofti við ströndina. Hiti verður á bilinu 11-17 stig. Það viðrar því vel til hátíðahalda í Reykjavík ef spár ganga eftir. Hinsegin dagar ná hámarki sínu í borginni í dag þegar árleg gleðiganga verður gengin í miðbænum. 

Á morgun gengur í suðaustan 5-13 m/s og fer að rigna en 13-18 m/s suðvestantil. Þeir sem ætla að gosstöðvunum í Meradölum á morgun mega því gera ráð fyrir vindaveðri. Þurrt verður á norðaustanverðu landinu fram eftir degi á morgun. Hiti verður á bilinu 10-21 stig, hlýjast norðaustantil. Snýst þó í sunnan og suðvestan 8-13 m/s undir kvöld með skúrum sunnan- og vestanlands. 

Suðlægar áttir verða ríkjandi næstu daga samkvæmt spám Veðurstofu Íslands. Vætusamt verður um landið sunnan- og vestanvert en bjart með köflum norðaustanlands. Lengst af verður úrkomulítið. Hlýnandi veður í bíli, segja spár, einkum fyrir norðan.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV