Mynd: U.S. Department of Defense - Bandaríska varnarmálaráðuney

Undirbúa eina stærstu vopnasendinguna til þessa
06.08.2022 - 01:44
Bandaríkjastjórn er sögð undirbúa nýjan aðstoðarpakka fyrir Úkraínumenn að andvirði eins milljarðs bandaríkjadala. Reuters greinir frá og hefur eftir þremur heimildarmönnum sínum.
Þetta yrði einn stærsti aðstoðarpakkinn til þessa en Bandaríkin hafa þegar sent Úkraínumönnum vopn og útvegað aðstoð fyrir tæpa níu milljarða dala.
Tilkynnt verður um þessa nýju sendingu á mánudaginn í fyrsta lagi, segir í frétt Reuters. Meðal annars stendur til að senda skotfæri fyrir langdræg vopn og brynvarða sjúkraflutningabíla. Joe Biden forseti er ekki sagður hafa skrifað undir enn og gæti sendingin því tekið breytingum áður en um hana er tilkynnt.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið ákvað í vikunni að leyfa Úkraínumönnum að leita læknisaðstoðar á herspítala Bandaríkjamanna nærri Ramstein-flugstöðinni í Þýskalandi. Á mánudag tilkynnti varnarmálaráðuneytið svo um annann aðstoðarpakka fyrir Úkraínu að verðmæti um 550 milljóna dala.