Reykjavíkurflugvöllur geti aldrei verið hafður til vara

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson/Kristin / RÚV
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir ákjósanlegast að varaflugvöllur verði byggður einhvers staðar á suðvesturhorni landsins þar sem Reykjavíkurflugvöllur geti aldrei tekið við allri flugumferð hingað til lands. 

Framtíð flugsamgangna var til umræðu í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Þar sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur að áhættusamt yrði að byggja flugvöll í Hvassahrauni enda geti yfirstandandi eldgosatímabil varað í áratugi og jafnvel lengur.

Reykjavíkurflugvöllur verði aldrei nógu stór

Dagur B. Eggertsson segir að byggja verði varaflugvöll fyrir Keflavíkurflugvöll einhvers staðar á suðvesturhorni landsins, þar sem hægt yrði að taka á móti síauknu alþjóðaflugi hingað til lands.  

„Fyrir nokkrum árum kom út skýrsla,” segir Dagur og vísar til skýrslu Þorgeirs Pálssonar, fyrrverandi flugmálastjóra, „…sem dró það rækilega fram að varaflugvallakerfi á Íslandi væri sprungið. Reykjavíkurflugvöllur er of lítill til þess að vera fullgildur varaflugvöllur miðað við hvað millilandaflugið væri orðið umfangsmikið þá. Það er aftur komið á svipaðan stað núna.”

Aðskildar umræður

Stefna meirihlutans í Reykjavík hefur um árabil verið sú að Reykjavíkurflugvöllur verði að víkja fyrir íbúabyggð. Spurður um framtíð slíkra áforma, nú þegar eldgos á Reykjanesskaga tefla hugmyndum um Hvassahraunsflugvöll í tvísýnu, segir borgarstjóri að um sé að ræða aðskilin mál. Sérstakt sé að blanda þessu saman. 

„Það hefur legið fyrir í mörg ár, að hvað sem umræðum um Reykjavíkurflugvöll líður, þá þurfum við nægjanlega stóran varaflugvöll fyrir alþjóðaflugið vegna þess að það hefur vaxið alveg gríðarlega á undanförnum árum. Ef það á að halda áfram að vaxa, ég tala nú ekki um ef við þurfum stað sem gæti tekið við ef Keflavík lokast af, þá þurfum við miklu stærri völl en Reykjavíkurflugvöllur getur nokkurn tímann orðið. Það er staða málsins og þess vegna er umræðan um varaflugvöll og umræðan um Reykjavíkurflugvöll er annað,” segir borgarstjóri.