Meðal átta bestu landsliða í heimi að minnsta kosti

Mynd með færslu
 Mynd: IHF

Meðal átta bestu landsliða í heimi að minnsta kosti

06.08.2022 - 09:25
Íslenska stúlknalandsliðið í handbolta, skipað leikmönnum 18 og ára yngri hefur svo sannarlega gert það gott á heimsmeistaramótinu í Norður-Makedóníu undanfarna daga. Íslenska liðið hefur ekki tapað leik og á morgun spilar íslenskt kvennalandslið í þessum aldursflokki í fyrsta sinn í 8-liða úrslitum HM.

Ísland mætir Hollandi í 8-liða úrslitunum á morgun. Með sigri kæmist Ísland þá í undanúrslit og ynni sér rétt til að leika um verðlaun á HM. Það yrði auðvitað algjörlega frábær árangur, en árangur er nú þegar orðinn afar góður. Enda hefur íslenskt kvennalandslið aldrei náð svona langt á stórmóti.

Íslenska liðið lauk keppni í milliriðli vel í gær með því að sigra heimakonur í liði Norður-Makedóníu 25-22. Þau úrslit eru afar sterk í ljósi alls. Ísland var búið að vinna riðilinn fyrir leikinn, heimakonur höfðu mikinn stuðning í stúkunni á leiknum og einn besti leikmaður Íslands, Elísa Elíasdóttir gat ekki spilað leikinn í gærkvöld eftir að hafa fengið höfuðhögg í leiknum á undan.

Ekki tapað leik á mótinu

Ísland hefur hefur til þessa spilað fimm leiki á HM. Liðið hefur unnið fjóra þeirra og gert eitt jafntefli. Jafnteflið kom á móti Svartfellinum í öðrum leik riðlakeppninnar, en þar vann íslenska liðið Svía og Alsíringa áður en Ísland sigraði svo Íran og Norður-Makedóníu í milliriðlinum.

Ísland leikur við Holland klukkan 16:15 í 8-liða úrslitunum á morgun í Skopje. Vinni Ísland þann leik bíða annað hvort Danir eða Frakkar í undanúrslitum á mánudag. Leikið verður svo um verðlaun á miðvikudag. Vefsíðan handbolti.is hefur fjallað ítarlega um framgang íslenska liðsins á mótinu og rétt að benda á þá umfjöllun fyrir þá lesendur sem vilja enn meira kjöt á beinin.