Telur gralið vera á Þingvöllum en ekki á Kili
Í hlaðvarpsþáttaröðinni Leitinni á Rás 1 hefur sagan af ævintýralegri leit ítalska verkfræðingsins Giancarlo Gianazza og Þórarins Þórarinssonar að hinu helga grali á Kili á Íslandi verið rakin. Gianazza rýndi í málverk ítölsku endurreisnarmálaranna og Hinn guðdómlega gleðileik Dantes og fann skilaboð um að hið heilaga gral væri falið á Íslandi, nánar tiltekið á Kili. Leitin á hálendi Íslands hefur varað í nær tuttugu ár. Þórarinn Þórarinsson, sem hefur aðstoðað Gianazza við leitina, hefur hins vegar færst nær og nær þeirri kenningu að gralið sé ekki falið á Kili heldur á Þingvöllum og telur sig hafa fundið leynistaðinn.
Orðið Grýla líkt orðinu gral
Þórarinn bendir á að í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar sé sagt frá 80 albrynjuðum Austmönnum sem riðu á Alþingi árið 1217 með Snorra Sturlusyni og gerðu sér búð sem nefndist Grýlubúð. „Grýla er líka mjög grunsamlega líkt orðinu gral sem var tengt við musterisriddara,“ segir Þórarinn, en hann telur albrynjuðu Austmennina hafa verið musterisriddara, á ferð til að fela gralið fyrir Katarana.
Telur sig hafa fundið nákvæman leynistað
Þórarinn telur sig hafa fundið staðinn þar sem Grýlubúð var og skammt frá henni er leynistaðurinn. „Þetta byrjar þannig að strax sumarið sem við [Giancarlo Gianazza] hittumst 2004 þá fór ég hingað og fann þennan stað, bara eftir leiðbeiningum Sturlu Þórðarsonar, og það tók mig bara hálftíma að finna þetta,“ segir Þórarinn. „Það sem þú horfir á hérna, þetta er svona v-laga form, þetta er nákvæmlega í laginu eins og skyldir musterisriddaranna. Og krossmark, sem var á þessum skjöldum, þannig að þetta er skjöldur musterisriddaranna, sem miðar niður á þetta gat,“ lýsir Þórarinn þar sem hann stendur fyrir framan staðinn sem hann telur vera leynistaðinn.
Vill gjarnan að formleg fornleifarannsókn fari fram
Þórarinn segist gjarnan vilja sjá formlega fornleifarannsókn gerða á staðnum og bætir við að það sé ekki hægt að halda svona stað leyndum endalaust. „Þegar þú ert einu sinni búinn að finna hann, þá mun orðrómurinn á endanum segja til. Og þá er það bara í höndum ábyrgra aðila að sjá til þess að það séu ekki framin einhver skemmdarverk hérna. Þangað til er það okkar ábyrgðarhluti, að passa upp á það, eiginlega bara minn, það er enginn annar sem heldur þessu fram, af þeirri sannfæringu sem ég er að reyna að gera,“ segir Þórarinn. „Þannig að ég er eiginlega verndari hins heilaga grals þessa dagana.“