Handtóku ökumann með ólögleg forgangsljós

06.08.2022 - 06:14
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Ökumaður á sjötugsaldri var handtekinn í Reykjavík upp úr klukkan eitt í nótt eftir að lögreglu var tilkynnt um að hann hafi reynt að aka bíl sínum með forgangsljósum ítrekað á bíl tilkynnanda. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Maðurinn var sagður hafa ítrekað ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi. Önnur tilkynning barst þar sem ökumaðurinn er sagður hafa ekið fast upp að næsta bíl, kveikt á sírenu og blikkljósum og síðan ekið á móti umferð.

Ökumaðurinn var stöðvaður skömmu síðar, handtekinn og færður á lögreglustöð. Hann var látinn laus eftir samtal við lögreglu og honum gert að fjarlægja ólöglegan neyðarbúnað úr bílnum.

Þrettán ára stoppaður í Hafnarfirði

Þrettán ára ökumaður var stöðvaður í Hafnarfirði rétt fyrir klukkan fjögur í nótt.

Þrír farþegar voru í bílnum, fæddir árin 2007, 2008 og 2009 og var málið unnið með aðkomu foreldra og tilkynningu til Barnaverndar. Drengirnir sögðust hafa ekið frá Reykjanesbæ til að sækja vin sinn í Hafnarfjörð.

Ungmennapartí í Elliðaárdal

Lögregla hafði sömuleiðis afskipti af ungmennum í partíi í Elliðaárdal þar sem tilkynnt hafði verið um tvö til þrjúhundruð manna hópasöfnun.

Lögregla skipti sér af nokkrum á staðnum þar sem áfengi var hellt niður og hringt í foreldra. Þegar lögregla kom aftur á vettvang síðar voru fáir eftir og svæðið var rýmt.

Þórgnýr Einar Albertsson