Eldgosið vekur upp spurningar um Vatnsmýrina

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Eldgosið í Meradölum nú og gosið í Geldingadölum í fyrra gætu verið upphafið að löngu eldgosatímabili á Reykjanesskaga. Endurmeta þurfi hættu sem steðjar að innviðum á svæðinu vegna þess. 

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að ekki sé endilega skynsamlegt að byggja flugvöll í Hvassahrauni og hafa þannig tvo flugvelli á einu og sama jarðeldasvæðinu. Þegar Hvassahraun þótti einna vænlegast fyrir uppbyggingu flugvallar, byggði það á spám um að ekki myndi gjósa á Reykjanesskaga næstu tvær aldir. 

„Ef gosið heldur áfram þá heldur hraunið áfram að flæða og bunkast upp og ef það kemst út úr Meradölum þá er greið leið út að sjó af því landið hallar meira og minna í þá áttina,” sagði Þorvaldur í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun og bætti þar við að hægt væri að ráðast í aðgerðir til þess að fyrirbyggja það. 

Þorvaldur sagði einnig að hraun hefði áður komist til sjávar báðum megin á Reykjanesskaganum, sem sýni að vegir til Keflavíkurflugvallar geti vel lokast ef til þess kemur aftur. Vegir eru þó ekki einu innviðirnir sem eldgosið gæti ógnað til langframa og nefndi Þorvaldur hitaveitu, rafmagnsveitu, fjarskiptamöstur, vatnsból og virkjanir í því sambandi.

„Það eru margir innviðir sem eru í hættu og eru í bráðari hættu en flugvöllurinn þannig séð,” sagði Þorvaldur.