Biðjast afsökunar á Snickersauglýsingu

06.08.2022 - 02:27
Erlent · Kína · Taívan
epa05176857 Various Mars chocolate bars pictured on a table in Duesseldorf, Germany, 23 February 2016. Mars announced on 23 February it is recalling all Mars and Snickers bars in Germany as plastic parts might be found in some production lines.  EPA
 Mynd: EPA - DPA
Mars Wrigley-sælgætissamsteypan baðst afsökunar í kvöld á auglýsingu fyrir súkkulaðistykkið Snickers. Kínverskum samfélagsmiðlanotendum þótti auglýsingin gefa í skyn að Taívan væri sjálfstætt ríki.

Í auglýsingunni sagði að sérstök útgáfa af Snickers yrði til sölu til skamms tíma í nokkrum löndum, þar á meðal Taívan. Baðst fyrirtækið afsökunar á þessu á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo og breytti auglýsingunni.

Taívan nýtur sjálfsstjórnar þótt fæst ríki heims viðurkenni sjálfstæði eyríkisins. Kínversk stjórnvöld á meginlandinu gera tilkall til Taívans.

Þangað flúði stjórn gamla Lýðveldisins Kína eftir að kommúnistar unnu borgarastyrjöld á síðustu öld. Kínverjar hafa gagnrýnt af hörku hvern þann sem kallar Taívan sjálfstætt ríki eða gefur slíkt í skyn.

Stærðarinnar heræfing Kínverja hófst umhverfis Taívan í vikunni eftir að Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar bandaríska þingsins, heimsótti eyjuna og fundaði með forseta hennar. Kínverjar sögðu heimsóknina svívirðilega.

Þórgnýr Einar Albertsson