Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ætlum að minnast þeirra sem fallið hafa í baráttunni“

Mynd: Samsett / RÚV

„Ætlum að minnast þeirra sem fallið hafa í baráttunni“

06.08.2022 - 14:00

Höfundar

„Þetta verður ekki tár, bros og takkaskór heldur tár, bros og hælaskór,“ segir Sigurður Þorri Gunnarsson sem stýrir nýjum skemmtiþætti í kvöld í tilefni Hinsegin daga. Fókusinn verður á gleðina en einnig verður fjallað um sorgina sem hefur fylgt bakslagi síðustu mánaða.

Í kvöld verður sýndur glænýr skemmtiþáttur í tilefni Hinsegin daga þar sem flutt verður tónlist og fólk tekið tali um hinseginleikann og allt sem honum tengist. Þátturinn er hluti af hátíðardagskrá Hinsegin daga og nefnist Fegurð í frelsi. „Ég er að fara í sjónvarpsbuxurnar,“ segir útvarpsmaðurinn Sigurður Þorri Gunnarsson þáttastjórnandi í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2.

Þá hefð að sýna slíkan þátt sem hluta af dagskrá Hinsegin daga segir hann vera eitt af því góða sem fæddist í heimsfaraldri. Síðustu tvö ár var ekki farin Gleðiganga vegna samkomutakmarkana og í fyrra var ákveðið að setja þáttinn á dagskrá sem eins konar sárabætur fyrir þá sem vildu fá að fagna hinseginleikanum að gömlum sið. „Nú fer Gleðigangan fram og allt eins og það á að vera, en það var ákveðið að gera þennan sjónvarpsþátt sem er sendur út á laugardagsvköldið þegar hápunktur hinsegin daga er,“ segir Sigurður. „Ég hlakka til að sýna þjóðinni. Þetta verður fjölbreyttur skemmtiþáttur með alvarlegum undirtóni líka. Við erum að sýna hinsegin tónlist, menningu og listafólk og ræða hinsegin málefni.“

Nýstirnið Una Torfadóttir er á meðal þeirra sem koma fram. Hún ætlar að segja áhorfendum frá tónlist sinni og ekki síst eftirtektarverðum textasmíðum. Í ástarlögum sínum yrkir hún til kvenna, eins og til dæmis í vinsæla laginu En sem mikið hefur hljómað í íslensku útvarpi upp á síðkastið. „Hún er tvíkynhneigð og ætlar að segja hvenær hún kom úr skápnum og af hverju það er mikilvægt að yrkja til kvenna í vinsælli popptónlist, það er ekki algengt,“ segir Sigurður.

Auk þess verður nýtt myndband við lag Hinsegin daga frumflutt. Bjarni Snæbjörnsson flytur lagið sem Sigurður lýsir sem miklum smelli. Fólk í baráttunni verður einnig tekið tali og þá verður meðal annars rætt um bakslagið sem hefur átt sér stað síðustu mánuði og margir hafa fundið á eigin skinni. „Við ætlum að heyra af þeirra upplifun, hvernig þeim líður og hvað við þurfum að gera til að gleyma okkur ekki í gleðinni,“ segir Sigurður. „Við ætlum að muna að bakslagið getur komið, það er hægt að taka réttindi til baka og svoleiðis.“

Þá verður bæði sorg og gleði í brennidepli. „Þetta er ekki tár bros og takkaskór heldur tár, bros og háir hælar,“ segir Sigurður.

Friðrik Ómar kemur fram í þættinum og flytur nýja útgáfu af Somewhere Over The Rainbow sem Judy Garland gerði frægt. Sigurður segir að lagið hafi verið tengt Hinsegin dögum í mörg ár. „Pride hófst á deginum sem Judy Garland var jörðuð, árið 1969. Þá brutust út pride-mótmæli í New York sem var vísir að því sem við þekkjum í dag, pride-hátíðum um allan heim,“ segir hann.

Þá gefist tækifæri til að staldra við. „Fordómar, hræðileg umræða og ofbeldi er lífshættulegt gagnvart hinsegin fólki. Við ætlum að staldra við á laugardag og minnast þeirra sem fallið hafa í baráttunni.“

Hátíðardagskrá Hinsegin daga - Fegurð í frelsi er á dagskrá á RÚV í kvöld kl. 19.45.