Tekjumunur mikill eftir kynhneigð fólks

Mynd: Shutterstock / Shutterstock
Mikill munur er á tekjum eftir kynhneigð á Íslandi. Þrátt fyrir meiri menntun eru hommar með þriðjungi lægri tekjur en gagnkynhneigðir karlmenn. Þetta eru niðurstöður úr könnun sem kynnt var í dag á ráðstefnu í Veröld - húsi Vigdísar.

Með því að fá sönnunargögnin gefur það okkur tækifæri til að betrumbæta samfélagið, segir formaður Bandalags háskólamanna, BHM. Af þeim 850 sem svöruðu telja sex af hverjum tíu halla á kjör og réttindi hinsegin fólks á vinnumarkaði.

BHM hafði frumkvæði að rannsókn á stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði í samvinnu við BSRB, ASÍ, Samtökin '78 og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Skoðuð voru framtöl samskattaðra karla og samskattaðra kvenna fyrir árið 2019.

Verulegur munur á atvinnutekjum

Vilhjálmur Hilmarsson hagfræðingur BHM segir að það sé umtalsverður munur á atvinnutekjum eftir kynhneigð á Íslandi. 

„Við erum að sjá homma vera með um þriðjungi lægri atvinnutekjur heldur en gagnkynhneigðir karlmenn. Lesbíurnar eru með 13% hærri atvinnutekjur en gagnkynhneigðar konur. Þannig að það er kynhegðunarbundinn halli í efnahagslegu öryggi á Íslandi.“

Hlutfall háskólamenntaðra homma er hærra en í viðmiðunarhópi gagnkynhneigðra. Aukin menntun skilar sér betur til lesbía. 2019 voru heildartekjur þeirra hærri en homma og gagnkynhneigðra kvenna í samanburðarhópnum.

Vilhjálmur segist velta því fyrir sér hvers vegna staðan sé eins og hún birtist í rannsókninni. „Er það sem fólk lítur á karlmannlegheitin, er einhver premía fyrir það á íslenskum vinnumarkaði?“

40% homma þáðu atvinnuleysisbætur í faraldrinum

Hommar komu verst út úr heimsfaraldrinum, tæplega fjórir af hverjum tíu þáðu atvinnuleysisbætur. COVID-19 skýrir það að hluta því margir hommar vinna í þjónustugreinum. Könnunin sýnir að trans fólk búi við minna atvinnuöryggi, sjö af hverjum tíu segjast hafa upplifað atvinnuleysi. 

Friðrik Jónsson formaður BHM, segir að gögnin tali sínu máli og því ómögulegt að leiða stöðuna hjá sér.

„Það verður að bregðast við, það verður að  taka til aðgerða. Það er það sem ég sé helst úr þessari vinnu. Með því að fá sönnunargögnin gefur það okkur vopnin, tækin og tólin til þess að segja, alright, hvernig leysum við úr þessu? Hvernig betrumbætum við okkar samfélag? Í lok dagsins þá er það sem við öll viljum. Við viljum búa í betra samfélagi, fyrir alla.“

Í spilaranum hér að ofan má horfa á umfjöllun um málið í kvöldfréttum.

Hér að neðan er hægt að horfa á ráðstefnuna í Veröld - húsi Vigdísar, þar sem niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar.