Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Spacey verður að greiða bætur

epa10069982 US actor Kevin Spacey arrives at the Central Criminal Court, known as the Old Bailey, in London, Britain, 14 July 2022. Spacey was charged with four counts of sexual assault against three men.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Beiðni bandaríska leikarans Kevins Spacey um áfrýjun, í máli þar sem honum var gert að greiða fyrirtækinu sem framleiddi sjónvarpsþættina Spilaborg eða House of Cards bætur, var hafnað í gær.

Spacey var gert að greiða framleiðslufyrirtækinu MCR 31 milljón bandaríkjadala, eða rúmlega 4,2 milljarða íslenskra króna, í nóvember á síðasta ári. 

Spacey var rekinn úr þáttunum eftir að upp komu ásakanir á hendur honum um kynferðisbrot gegn unglingsdrengjum og samstarfsfólki. Með framferði sínu var hann sagður hafa brotið margvíslegar reglur framleiðslufyrirtækisins. 

Í kjölfarið neyddist fyrirtækið til að fresta framleiðslu þáttanna og endurskrifa handritið til að losna við Frank Underwood sem Spacey lék í fimm þáttaröðum. 

Dómari í Los Angeles í Bandaríkjunum hafnaði beiðni Spacey í gær. Hann verður því að greiða bæturnar. 

Spacey var ákærður í maí fyrir fjögur kynferðisbrot í Bretlandi, gegn þremur mönnum. Hann mætti fyrir dómstóla þar í landi 14. júlí. Þar neitaði hann sök í öllum málunum. Dómarinn bókaði réttarhöldin ekki fyrr en eftir ár, 6. júní 2023, þar sem breska dómskerfið glímir nú við langa biðlista mála sem þurfa að komast fyrir dóm.