Slikja lá yfir Pollinum og Heilbrigðisnefnd vill mæli

05.08.2022 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Angantýr Ómar - RÚV
Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hefur ítrekað bón sína um að Akureyrarbær fjárfesti í mæli til að fylgjast með útblæstri skemmtiferðaskipa. Töluverður reykur lá yfir bænum í morgun en áhöld eru um hversu mengandi hann er.

Fjölmörg skip til Akureyrar í sumar

Um 200 þúsund ferðamenn sækja Akureyri heim í sumar með rúmlega 200 skemmtiferðaskipum. Oftar en ekki er fleiri en eitt skip í höfn hverju sinni og þá getur, í vissum veðurskilyrðum, hvít slikja lagst yfir hluta bæjarins. Stilla var í bænum í morgun og þá mátti vel sjá útblástur frá skipunum.

„Með mjög fullkominn hreinsibúnað”

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri hjá Akureyrarhöfn, segir þróunina í rétta átt og hefur litlar áhyggjur af stöðunni. „Fjöldi skipa sem koma núna til Íslands eru með mjög fullkominn hreinsibúnað, svokallaða scrubbers og það hreinsar útblásturinn um 98 prósent þannig að oft á tíðum er þetta bara gufa sem kemur út í loftið en menn náttúrlega vissulega halda að það sé mengun allt saman en svo er ekki, ”segir Pétur.

Þannig að þessi slikja sem lá hérna yfir bænum í morgun er ekki endilega skaðleg? 

„Nei ég hef svosem ekki efnagreint hana en þeir eru að nota þá olíu sem er lögleg og það er engin svartolía notuð í þessum skipum í dag.” 

Heilbrigðisnefnd vill að keyptur verði mælir

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hefur fylgst vel með þróun mála og sendi beiðni til bæjaryfirvalda og Akureyrarhafnar árið 2019 þess efnis að keyptur yrði færanlegur loftgæðamælir. Bærinn varð ekki við þeirri ósk og nefndin ítrekaði bónina á fundi í sumar. Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlitsins, segir í samtali við fréttastofu að nefndin hafi talað fyrir daufum eyrum bæjaryfirvalda og ítrekar bónina enn á ný. 

„Ég hef nú bara ekki séð þessa tillögu frá því um daginn. Faxaflóahafnir eru að gera mjög nákvæma mælingu í dag og við munum fylgjast með grannt með því þetta eru sömu skipin sem eru að koma.” 

En stendur til að kaupa svona mæli?

„Það kemur alveg til greina”

Mynd með færslu
 Mynd: Angantýr Ómar - RÚV
Mynd tekin fyrr í sumar