Nýr maður í toppsætinu eftir annan dag Íslandsmótsins

Mynd með færslu
 Mynd: SEÞ - GSÍ

Nýr maður í toppsætinu eftir annan dag Íslandsmótsins

05.08.2022 - 21:50
Birgir Guðjónsson úr Golfklúbbnum Esju leiðir í karlaflokki á Íslandsmótinu í golfi þegar keppnin er hálfnuð. Skorið var niður eftir keppni dagsins en þriðji og fjórði hringur verða leiknir á laugardag og sunnudag, að því gefnu að veður leyfi á sunnudag.

Birgir lék frábærlega í dag og kláraði hringinn á 64 höggum eða sex höggum undir pari, náði til að mynda erni á fimmtándu holu. Hann spilaði hringinn á einu höggi yfir pari í gær og er því samanlagt á fimm höggum undir pari eftir dagana tvo.

Heimamaðurinn Daníel Ingi Sigurjónsson úr Golfklúbbi Vestmannaeyja átti sömuleiðis góðan dag og spilaði á fjórum höggum undir pari. Hann er samtals á þremur höggum undir pari í keppninni, eins og Böðvar Bragi Pálsson úr GR og Kristófer Orri Þórðarson úr GKG en Kristófer leiddi eftir fyrsta hring í gær.

Ríkjandi Íslandsmeistarinn, Aron Snær Júlíusson úr GKG, náði sér ekki alveg á strik í dag, lék á tveimur höggum yfir pari, og er eins og er í níunda sæti ásamt fimm öðrum kylfingum á pari. Nánari stöðu á mótinu má sjá hér. 

RÚV sýnir beint frá keppni á þriðja hring á morgun frá klukkan 15:00 og svo frá keppni á lokahringnum á sunnudag frá 14:30.