Ný og styttri gönguleið að gosstöðvunum

05.08.2022 - 08:10
Mynd með færslu
Um 5-6 þúsund manns hafa lagt leið sína að gosstöðvunum í Meradölum á degi hverjum, samkvæmt sjálfvirkri talningu Ferðamálastofu. Lögreglan telur þó að fleiri fari um svæðið. Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RUV
Björgunarsveitin Þorbjörn stikaði í gær nýja tæpa sjö kílómetra gönguleið að gosstöðvunum. Steinar Þór Kristinsson, formaður björgunarsveitarinnar, segir að leiðin stytti gönguna töluvert og vonast til að áfram verði hægt að bæta aðgengið.

„Hún breytir því að þegar fer að skyggja þá hefur fólk stikur til að elta. Og vonandi náum við að laga til gönguleiðina svo hún verði greiðfærari. Þetta er erfitt gönguland þarna uppi, stórgrýtt og gróft. En það stendur vonandi til bóta, við náum að laga þetta eitthvað til,“ segir Steinar Þór.

Margir lögðu leið sína að gosstöðvunum í gær þvert á ráðleggingar almannavarna sem hafa varað við slysahættu. Um það bil sextán björgunarsveitarmenn eru á hverri vakt og að þrátt fyrir mikla umferð í gærkvöldi hafi gengið vel. Steinar segir brýnt að fólk fari að leiðbeiningum almannavarna, komi vel búið að gosstöðvunum og fari með gát. 

„Við leyfum okkur að vona og trúa því. en ég held að við náum aldrei til allra, sérstaklega ekki til ferðamanna,“ segir hann. 

Gossprungan í Meradölum hefur styst og mælingar gærdagsins sýna að dregið hefur úr hraunflæði. Ekki er þó komið jafnvægi á þrýsting í kvikugangi undir gossprungunni og talið er að nýjar sprungur kunni að myndast.