Minnst níu látin eftir loftárás Ísrael á Gaza

05.08.2022 - 18:28
epa10107342 An injured Palestinian stands at the site that was targeted by Israeli airstrikes in Gaza City, 05 August 2022. According to the Palestinian ministry of health, at least four people were killed, including a child, in a series of Israeli airstrikes on multiple targets in the Gaza Strip including a residential apartment in neighborhood of Al-Rimal. Al-Quds Brigades, the armed wing of the Palestinian Islamic Jihad, announced that senior leader Tayseer al-Jabari was killed in the attacks.  EPA-EFE/MOHAMMED SABER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Að minnsta kosti níu voru drepin og tugir særðust í eldflauga- og loftárásum Ísraelshers á Gaza-borg í dag. Samtökin Jihad eða Heilagt stríð segja árásirnar jafngilda því að Ísraelsmenn hafi lýst yfir stríði og að árásunum verði svarað.

Heilbrigðisráðuneyti Palestínumanna á Gaza-svæðinu greinir frá því að fimm ára stúlka hafi verið drepin í árásunum, auk átta almennra borgara. Að minnsta kosti 55 særðust í árásinni samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins.

Meðal látinna er einnig Taysir al-Jabari, háttsettur foringi í samtökunum Heilags stríðs, sem var yfirmaður hernaðararms þeirra á norðursvæði Gaza-strandarinnar.

Í yfirlýsingu Ísraelshers segir að árásirnar í dag hafi verið hluti af aðgerðum gegn vígasamtökunum. Herinn greinir frá því að fimmtán vígamenn samtakanna hafi verið felldir í árásinni. Hún hafi verið hluti afmarkaðra aðgerða til þess að lama starfsemi vígasamtakanna.

Vaxandi spenna fyrir botni Miðjarðarhafs 

Loftárásirnar koma í kjölfar vaxandi spennu fyrir botni Miðjarðarhafs undanfarna daga eftir að Ísraelsher handtók yfirmann í samtökunum í borginni Jenin á Vesturbakkanum á mánudag.

Herinn lokaði fjölförnum vegum í kjölfarið og sendi liðsstyrk og skriðdreka til landamæranna, af ótta við hefndaraðgerðir.

Töluvert tjón varð á byggingum á Gaza-svæðinu. Sjö hæða háhýsi í miðborg Gaza-borgar varð fyrir eldflaugum, en byggingin hýsti meðal annars ritstjórnarskrifstofur AP-fréttastofunnar og katörsku sjónvarpsfréttastöðvarinnar Al Jazeera. 

Almennir borgarar bjuggu einnig í húsinu. Eldur braust út í árásunum og áttu björgunarsveitir fullt í fangi með að rýma heimili fólksins. Fjöldi almennra borgara átti fótum sínum fjör að launa.

Segja árásirnar stríðsyfirlýsingu

AFP-fréttaveitan hefur eftir talsmönnum samtakanna Heilags stríðs að árásirnar jafngiltu stríðsyfirlýsingu. Með þessum árásum í dag hefðu Ísraelsmenn sagt Palestínumönnum stríð á hendur.

Samtökin ákölluðu stuðningsfólk og aðrar herskáar andspyrnuhreyfingar um að bregðast við með einörðum hætti og takast á við ógnina í sameiningu.

Ísraelskir fjölmiðlar hafa eftir Richard Hecht, talsmanni hersins, að búast megi við eldflaugaárásum frá Gaza-svæðinu í kvöld og nótt.

Benny Gantz, varnarmálaráðherra Ísrael, segir að stjórnvöld í Ísrael hafi að undanförnu undirbúið árásirnar, sem hefðu það markmið að útrýma ógninni sem stafar af Gaza-svæðinu. 

Bandaríkjastjórn hvatti andstæðar fylkingar í dag til stillingar, en minnti jafnframt á rétt Ísraelsmanna til að verja hendur sínar.

epa10107303 Smoke rises from a building after Israeli airstrikes in Gaza City, 05 August 2022. According to the Palestinian ministry of health, at least four people were killed, including a child, in a series of Israeli airstrikes on multiple targets in the Gaza Strip including a residential apartment in neighborhood of Al-Rimal. Al-Quds Brigades, the armed wing of the Palestinian Islamic Jihad, announced that senior leader Tayseer al-Jabari was killed in the attacks.  EPA-EFE/MOHAMMED SABER
 Mynd: EPA-EFE - EPA