Líklegt að fleiri gossprungur myndist

05.08.2022 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Hagalín Björnsdótt - RÚV
Sprungur norðaustan við gosstöðvarnar í Meradölum hafa gliðnað og talið er að kvika geti fundið sér leið upp á yfirborðið. Fulltrúar Veðurstofunnar fljúga yfir gosstöðvarnar klukkan 13 og kanna aðstæður. 

Þegar eldgos braust út í Geldingadölum í fyrra leið ekki langur tími þar til kvika náði upp á yfirborðið á fleiri stöðum. Eldgosið í Meradölum er norðaustan við Geldingadali og nú á að kanna svæði enn norðaustar. Þar eru líkur taldar á að fleiri gossprungur opnist. Kristín Jónsdóttir er hópstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands. 

„Í þessu flugi þá ætlum við að skoða svæðið bak við Meradalahnjúk, sem er þá norðaustan við gossprungurnar. Það kom fram á vísindaráðsfundi í gær að þar eru þekktar sprungur sem hafa verið að gliðna. Við ætlum að fara og skoða þær,” segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands.

Opnist ný sprunga norðaustan við gosstöðvarnar, segir Kristín að mjög ólíklegt sé að einhver hætta skapist. Líklegast er að það verði svipað og í fyrra þegar meinlausar sprungur mynduðust víða í kring. Ekki sé talið líklegt að kvikugangur færi sig sífellt norðaustar og nái að höfuðborgarsvæðinu. Líkön Veðurstofu fyrir meðalstór hraungos, sem eru þá mun stærri en gosið í Geldingadölum í fyrra og Meradölum nú, sýna að mjög ólíklegt er að hraun nái nokkurn tímann inn á höfuðborgarsvæðið. 

„Það er í raun það sem við búumst við núna, ekki að það fari að opnast sprungur einhvers staðar langt í burtu til vesturs eða austurs, alls ekki, heldur frekar í þessari sprungustefnu sem gýs núna.”