„Hvað er hommi?“

Mynd: Kristín María / Aðsend

„Hvað er hommi?“

05.08.2022 - 09:22

Höfundar

Árni Grétar Jóhannsson man eftir því að hafa heyrt samtal tveggja manna í útvarpinu þegar hann var sex ára. Þeir töluðu um hinsegin málefni þess tíma og sögðu í sífellu orðið hommi sem vakti forvitni Árna sem spurði pabba sinn: „Hvað þýðir það, hvað er hommi?“

Árni Grétar kom út úr skápnum 2002 en segist ungur hafa áttað sig á því að hann væri ekki eins og fólk er flest. Þegar hann var sex ára heyrði hann orðið hommi fyrst og spurði pabba sinn hvað það þýddi. „Hann verður pínu kjánalegur en svarar svo af mikilli yfirvegun: Hommi er maður sem elskar annan mann eins og ég elska mömmu þína,“ rifjar hann upp í Skápasögum sem fluttar eru í Sumarmáli á Rás 1 í hinsegin viku.  

Ekkert fallegra en að elska 

Árni Grétar kom út fyrir mömmu sinni þegar hann sagði henni að hann hefði verið að hitta strák en kom ekki beint út fyrir skápnum formlega fyrir öðrum. Hann fór einfaldlega að svara því játandi þegar að fólk í kringum hann spurði hvort hann væri hommi. Hann ákvað að segja ekkert við ömmur sínar og afa fyrr en hann ætti kærasta: „Mér fannst ég þurfa að hafa eitthvað til að segja frá.“ Hann hafði áhyggjur af því að föðuramma hans sem væri trúuð myndi taka fréttunum illa en annað kom á daginn. Amman sagðist hreinlega ekki þola neina mismunun og að „ég ætti aldrei að láta segja mér annað en að það sem ég gerði og væri væri fallegt, því það sem ég gerði væri að elska og það væri ekki til neitt fallegra í heiminum en að elska,“ rifjar hann upp. 

Slapp við sjálfsfordóma 

Skýringar föður hans og ömmu urðu til þess að hann slapp við sjálfsfordóma. „Þá beit eineltið ekki á mig. Ef ég var kallaður hommi þá bara yppti ég öxlum, já og hvað með það? Það er bara einhver sem elskar. Ég gat ekki séð neikvæðu hliðina á því.“ Hann segir þetta ljóslifandi dæmi um það hversu máttug orð eru og minnir á mikilvægi þess að vera meðvituð um það hvernig við tölum um hvert annað og við óharðnaðar sálir. 

Alltaf að koma út úr skápnum 

„Ég held að maður muni vera ævina á enda að koma út úr skápnum aftur og aftur.“ Árni Grétar vinnur mikið í verktöku og í ferðabransanum og er því sífellt að kynnast nýju fólki. Það komi fyrir að spjallað eru um persónulega hagi í vinnunni og þá hvort hann eigi konu eða kærustu. Það kalli stundum fram kjánaleg viðbrögð þegar hann segist eiga mann og fólk geti óumbeðið samþykki á kynhneigð hans. „Maður veit ekki alveg hvað maður á að segja, á ég að segja takk, takk fyrir að samþykkja mig?“ 

Ekki lengur spurningarmerki 

Árni Grétar segir mikilvægt að vita að maður tilheyri og finna hóp til að samsvara sig með. „Ég fann alveg heilmikinn mun á sjálfum mér við það að koma út úr skápnum því þá var ég ekki lengur þetta spurningarmerki.“ Sjálfsmyndin byggist á því að þekkja sjálfan sig: vita hver maður er sem manneskja, þekkja tilfinningar sínar og hvernig þær liggja.  

Ferðalag að uppgötva sjálfan sig 

Árni Grétar ráðleggur fólki sem er í einhverjum vafa um kynhneigð sína eða kynvitund að finna aðra manneskju sem það treystir og að byrja á því að koma hugsunum sínum í orð. Hann segir að þrátt fyrir framfarir í samfélaginu og aukinn stuðning við hinsegin fólk sé það ferðalag að koma út úr skápnum. „Það breytist ekki þó að við yrðum sú hinsegin útópía sem Ísland vill verða þá mun það ekki breyta því að persónulega ferðalag hvers og eins er langt og það eru ákveðnir hólar og þröskuldar sem þarf að stíga yfir.“

Árni Grétar Jóhannsson sagði skápasögu sína í Sumarmálum á Rás 1. Hægt er að hlusta á allar skápasögurnar hér í spilara RÚV. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ólýsandi hugarró að vera ég sjálfur

Mannlíf

Mesta vinnan var að yfirvinna eigin fordóma

Bókmenntir

Talin íkveikjuhætta af ölvuðu hinsegin fólki