„Fékk mjög háan hita og glímdi við vökvaskort“

Mynd með færslu
 Mynd: Simone Castrovillari - Simone Castrovillari/SSÍ

„Fékk mjög háan hita og glímdi við vökvaskort“

05.08.2022 - 15:22
„Þetta voru tveir dagar þar sem ég var algjörlega rúmliggjandi. Ég þurfti svo að fara upp á heilsugæslu, eftir að það leið yfir mig. Ég fékk mjög háan hita og glímdi við vökvaskort. Þannig að þetta var rosalegt,“ sagði sundkappinn Anton Sveinn McKee sem fékk skæða pest nú aðeins nokkrum dögum áður en hann hefur keppni á EM í sundi í Róm í næstu viku.

„Ég er allur að koma til. Ég var að koma úr rannsókn þar sem leitað var skýringa. Þar kom í ljós að þetta var sem betur fer ekkert rosalega skæð baktería. En ég hef greinilega bara fengið svona slæmt tilfelli af henni,“ sagði Anton Sveinn þegar hann ræddi við RÚV í dag.

Ætlar ekki of geyst af stað

En hversu mikið setja veikindin strik í reikninginn í EM-undirbúningnum? „Ég er nú sem betur fer heilbrigður og með góða heilsu yfir höfuð. Auðvitað tóku þessi veikindi mig hratt niður en á sama tíma ætti maður að ná sér hratt á strik aftur að sama skapi. Þannig það er bara að reyna að halda eins mikilli yfirvegun og hægt er. Ekkert að fara of geyst af stað og ég hef nú líka æft vel að undanförnu. Svo lítur nú líka út fyrir að ég fái næstum því viku í Róm fyrir æfingar,“ sagði Anton Sveinn sem hefur aðeins verið í léttu busli í dag sem hann segist ekki kalla æfingar.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Anton Sveinn McKee er á leið á EM í Róm sem hefst í næstu viku.

Anton stefnir hátt í 200 m bringusundinu á EM. Hann komst í úrslit í þeirri grein á HM í Búdapest í júní þar sem hann endaði í 6. sæti. Hann var þó í forystu þegar lítið var eftir af úrslitasundinu. Anton hafði áður gefið út að hann vonaðist til að toppa á EM í Róm. Þar syndir hann 100 m bringusund áður en kemur að 200 m bringusundinu. „100 metra bringusundið verður svona ákveðin prófraun. Ég ætla að nota það sund til að koma mér í gott stand á mótinu fyrir 200 metra bringusundið.“

EM verður í útilaug sem breytir undirbúningi aðeins

„Keppnin sjálf verður alveg nákvæmlega eins. Eina sem er öðru vísi er bara undirbúningurinn. Ég mun hita upp í útilaug og þar er heitara. Þannig þá er líklegt að maður tapi meiri vökva. Ég þarf þess vegna að venja líkamann á að vera með meiri vökvabúskap. Það verður heitara á bakkanum yfir höfuð. Þannig maður þarf að passa sig að svita ekki af óþörfu, vera á kaldari stöðum og spá í þess háttar hluti. Ég þarf því, bara að venjast aðstæðum þegar ég kem til Rómar og nýta mér það,“ sagði Anton Sveinn McKee.

Anton syndir í undanrásum 100 m bringusundsins að morgni 11. ágúst. Komist hann áfram eru undanúrslit seinni part þess dags. Sýnt verður beint frá úrslitahlutum EM í sundi alla keppnisdaga frá kl. 16:00. Undanrásir og undanúrslit 200 m bringusundsins verða laugardaginn 13. ágúst og komist hann í úrslit verða þau sunnudaginn 14. ágúst.