Draumurinn kviknaði í Disney World

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / Sumarlandinn/RÚV

Draumurinn kviknaði í Disney World

05.08.2022 - 12:27

Höfundar

Í gömlu fjósi á Hólum í Hjaltadal hefur líffræðingurinn Amber Monroe byggt upp lítið fyrirtæki þar sem hún ræktar bæði fisk og grænmeti. Hún segir mikla möguleika á Íslandi fyrir samræktun af þessu tagi.

„Ég held ég hafi verið tólf ára þegar ég sá samræktun fyrst og það var í Disney World. Þá vissi ég að þetta væri það sem ég vildi gera,“ segir Amber sem er bandarísk og alin upp í Savannah í Georgíu. Hún lærði líffræði og kom til Íslands fyrir fjórum árum síðan til þess að læra fiskeldisfræði við Háskólann á Hólum. Í fyrra stofnaði hún fyrirtækið Ísponica og ræktar nú grænmeti, einkum spírur, í gamla fjósinu á Hólum. 

Samræktunin byggir á ákveðinni hringrás þar sem vatni úr fiskabúrum er dælt upp í gróðurbeð og þannig nýtist úrgangurinn úr fiskabúrinu sem áburður fyrir plönturnar. 

„Þetta hefur ýmislegt gott í för með sér. Í fyrsta lagi fer vatn ekki í súginn því þetta er lokuð hringrás, næringaefnin fara beint til plantnanna og það er hægt að rækta fjölbreytt matvæli, fisk og plöntur, í sama kerfinu,“ segir Amber og bætir því við að ræktun af þessu tagi sé gott tæki til að draga úr kolefnissporinu. „Það eru miklir möguleikar í samræktun á heimsvísu en möguleikarnir eru líka mjög miklir á Íslandi því hér er mikið um fiskeldi.“

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum.