
Áframhaldandi eldgos gæti slegið á verðbólgu
„Ef fjölgunin verður eitthvað sem munar um þá flýtir hún þeirri þróun sem er þegar orðin, að við erum að sjá utanríkisviðskiptin okkur fara úr halla í afgang. Og það ætti að hjálpa til að lyfta undir krónuna. Hversu sterk þau áhrif verða veltur auðvitað á því hversu mikil fjölgunin verður. En það sem styrkir krónuna ýtir alltaf niður verðbólgu á Íslandi. Þau áhrif gætu komið fram á síðustu mánuðum ársins,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Skammtímaáhrif óljós
Hann telur að til skamms tíma kunni að vera að ferðafólki fjölgi ekki svo hratt. „Einfaldlega vegna þess að ferðaþjónustan starfar nærri getu í að anna eftirspurn ferðamanna. Hún hefur verið það lífleg í sumar, og að minnsta kosti framar okkar vonum,“ segir hann.
Til skamms tíma myndi verð þó hækka í ákveðnum geirum. „Þá bregðast flugfargjöld, gisting og annað við, þær greinar sem hafa kvika verðlagningu, og hækka verð. Þannig myndu tekjur af hverjum ferðamanni aukast, þótt ekki væri hægt að anna mikið fleirum,“ segir hann.
Þrýstingur á íbúðamarkað myndi þó aukast
Jón Bjarki bætir við að ef gosið heldur áfram og ýtir undir ferðamannstraum hingað til lands í vetur gæti þrýstingur aukist á íbúðamarkaði. „Þá eykst hvatinn fyrir þá sem eru með húsnæði til umráða sem þeir eru ekki að nota sjálfir eða ekki í langtímaleigu, að leigja það út í Airbnb eða eitthvað svoleiðis. Og ef á að bæta starfsfólki við inn í ferðaþjónustuna þá þarf það að koma frá útlöndum, og það þarf náttúrulega húsnæði,“ segir hann.