Frá því í júníbyrjun hafa þrjár hitabylgjur gengið yfir Spán. Júlí var afar heitur mánuður og samkvæmt spænskum heilbrigðisyfirvöldum létust minnst 2.124 vegna hita. Flest dauðsföll eru skráð 19. júlí - á þeim degi létust 184. „Flestir deyja vegna álags af völdum hitans. Hann getur haft áhrif á mörg líffæri, dregið úr virkni þeirra og valdið stórtækri líffærabilun og þar með dauða,“ segir Lorenzo Armenteros, talsmaður félags heimilislækna á Spáni.
Áfram heitt og þurrt í ágúst
Samkvæmt veðurspám verður áfram heitt og þurrt í ágúst. Fólk þarf því að laga sig að hitanum. Verkafólk sem vinnur úti hefur sumt vinnu fyrr en áður. „Við byrjum klukkustund fyrr, klukkan sex að morgni, og hættum klukkan 13 í stað 14. Þá er orðið of heitt,“ segir Christina Pascual, verkakona í Barcelona.
Þá hafa borgaryfirvöld í Barcelona opnað yfir 150 svokölluð loftslagsskýli, þar sem fólk getur leitað skjóls undan hitanum. Og hitinn hefur ekki aðeins áhrif á mannfólkið. „Vandinn við kú sem er heitt er að mjólkurframleiðsla minnkar. Ónæmiskerfi skepnunnar veikist vegna álagsins, svo hún veikist frekar,“ segir Daniel Ponté, dýralæknir.