Virknin hálfdrættingur á við það sem hún var í gær

Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði var í viðtali frá gosstöðvunum í kvöldfréttum sjónvarps. Hann segir heldur hafa dregið úr gosvirkni í dag.

„Það hefur nú dregið heldur úr virkninni í dag þannig að framleiðnin er kannski hálfdrættingur á við það sem hún var í gær. Virknin hefur líka dregist saman á svona miðhluta upprunalegu gossprungunnar en hraunið er að flæða bæði niður í Meradali og svo í gegnum lítið skarð hér norðurfyrir,“ segir Þorvaldur. Hann segir að hraunið muni halda áfram að flæða í Meradali en spurning sé hvernig þróun verði með tunguna sem fer í norður. 

Fram hefur komið í dag að gossprungan geti opnast lengra til norðurs. „Ef að kvikuþrýstingurin annaðhvort helst við eða eykst í ganginum, þá er alltaf möguleiki að sprungan lengist til norðurs eða jafnvel til suðurs. Það er bara spurning hvernig ástandið í aðfærsluæðinni þróast á næstu sólarhringjum,“ segir Þorvaldur. Því ætti fólk ekki að eyða miklum tíma í brekkunni fyrir ofan sprunguna.

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir