Telur að nokkur tími líði áður en Meradalir fyllast

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur. - Mynd: RÚV / RÚV
Gosið í Meradölum er í samræmi við það sem líkön bentu til, segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur, og það gýs eiginlega á heppilegasta stað sem hugsanlegt er. Tæki og mælar gera nú kleift að fylgjast vel með því sem gerist neðanjarðar, hvernig kvikugangurinn lagði af stað og hvar líklegast var að kvika kæmi upp. Páll segir að svo virðist þó sem ekki sé komið jafnvægi á þrýstinginn í ganginum. 

Hann ýti enn frá sér sem þýðir að þrýstingurinn í honum er að aukast, þó að hann sé orðinn lekur það er að kvika komi upp á yfirborðið. Páll sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 að hafa verði auga með þrýstingnum, hraunflæðið geti aukist eða gosið á nýjum stað, í nýjum sprungum. 

Geldinga- og Meradalir eru sérstakir

Páll hefur lengi rannsakað Reykjanesskaga og þekkir hann vel. Hann segir aðstæður í Geldinga- og Meradölum sérstakar, úr þeim er ekki afrennsli eins og í venjulegum árdölum og því þurfi töluvert hraun að renna áður en þeir fyllast og flæðir yfir. Meradalir hafi fyllst til hálfs í gosinu í fyrra en það gæti tekið nokkrar vikur að fylla þá þó að allt velti auðvitað á ganginum í gosinu. Þegar Meradalir fyllast gæti hraun runnið í margar áttir, segir Páll; til austurs, til suðurs í átt að Suðurstrandarvegi eða til norðurs um skörð út á Þráinsskjöld, sem er mikið hraunflæmi og tæki lengi við áður en hraun færi að valda tjóni.     

Það er erfitt að ímynda sér sér heppilegri stað á Reykjanesskaga miðað við hvað þetta er nálægt byggð. 

Aðdragandi gossins sem hófst 3. ágúst er langur, segir Páll, eftirlitsaðferðir og tækjabúnaður hafi tekið stakkaskiptum frá því sem áður var. Það er auðveldara að fylgjast með kvikustreymi neðanjarðar og gervihnattamyndir sýna hvernig yfirborð jarðar breytist þegar kvikan fer af stað. Þá er nú hægt að mæla með töluverðri vissu hvert rúmmál kviku í ganginum er og hvar hún kemur líkast til upp. 

Bylting í tækjabúnaði

Því var fyrirséð að gosið yrði töluvert öflugra en gosið í fyrra. Páll segir að athygli vísindamanna hafi beinst að Íslandi og því sé líka gott samstarf við erlenda sérfræðinga. Þegar hann hóf sinn feril voru fjórir jarðskjálftamælar í landinu sem skráðu hreyfingar á ljósmyndapappír í myrkraherbergi. Framan af fólst vinna Páls mjög í að hanna nýja skjálftamæla. Það var gert eftir gosið í Heimaey og starfið snerist um að vinna úr gögnum og reikna, starf sem tölvutæknin hefur auðveldað mjög. 

10. kafli í sögu sem hófst fyrir nærri þremur árum

Gosið ekki stakur atburður, segir Páll, heldur kafli í framhaldssögu sem hófst með skjálftahrinu undir Fagradalsfjalli í desember árið 2019. Síðan þá hafi gengið á með kvikuinnskotum, jarðskjálftahrinum, landrisi og gosi. Hann bendir á að svæðið sem er undir sé stærra en bara gosstöðvarnar. Það nær frá flekaskilum sem liggja eftir endilöngum Reykjanesskaga, stykki frá Kleifarvatni og Krýsuvík og svo vestur fyrir Reykjanes og út í sjó. Þar hafa orðið óvenjumargar jarðskjálftahrinur, kvikuinnskot og landris sem varð til dæmis sex sentimetrar við Þorbjörn í vor. Flekaskilin eru sívirk en virknin gengur yfir í hviðum og þarna gekk töluvert á á áttunda áratugnum fram undir 1977 en svo varð kyrrt um hríð. Þegar gaus í fyrra hafði ekki gosið á Reykjanesskaga í 800 ár. Árið 1240, á dögum Snorra Sturlusonar, gaus á skaganum en ef skyggnst er lengra aftur var þar á undan nokkur hundruð ára hlé. Kviður geti samt staðið í 200-300 ár og búast megi við fleiri gosum á og líka víðar á skaganum. Enn geti orðið sterkari skjálftar á eystri hluta Reykjanesskaga sem ekki hafi látið á sér kræla enn. 

Heyra má viðtalið við Pál í spilaranum að ofan.