Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Stuðningur við Framsókn dalar

04.08.2022 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Stuðningur við Framsóknarflokkinn dalar milli mánaða. Alls segjast 15,4% myndu kjósa flokkinn ef gengið væri til kosninga nú samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Fylgið var 17,5% í síðasta mánuði en flokkurinn fékk 17,3% atkvæða í kosningum í fyrrahaust.

Litlar breytingar eru annars á fylgi flokka milli mánaða. Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem fyrr stærstur en 22,1% myndu kjósa flokkinn. Samfylkingin mælist með 13,7%, sama og í síðasta mánuði en nokkru meira en í kosningum í fyrra. Að sama skapi hefur fylgi Vinstri grænna dregist saman frá kosningum og er 8,6%.

Fylgi Pírata er 15,0%, Viðreisnar 8,6% og Flokks fólksins 5,3%. Miðflokkurinn mælist með 4,4% en Sósíalistaflokkurinn 5,3%.

 

Rétt tæpur helmingur, 49%, segjast styðja ríkisstjórnina, sem er sama hlutfall og í síðasta mánuði. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja dregst hins vegar saman og er nú 46% samanborið við 48% í síðasta mánuði og 54% í kosningunum.

Gallup framkvæmdi könnunina dagana 1. júlí til 1. ágúst. Könnunin var netkönnun og með handahófskenndu úrtaki úr Viðhorfahópi Gallup upp á 9.705 manns. Þátttökuhlutfall var 49,0% og vikmörk á fylgi einstakra flokka eru á bilinu 0,6-1,3%.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV