
Stærsta heræfing í sögu Kína hafin við Taívan
Kínversk stjórnvöld brugðust ósátt við heimsókn Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar bandaríska þingsins, til Taívan í gær. Kína gerir tilkall til eyjunnar, en þangað flúði ríkisstjórn gamla Lýðveldisins Kína eftir að kommúnistar unnu sigur í borgarastyrjöld á síðustu öld.
Pelosi fór frá Taívan í nótt. Hún var æðsti bandaríski embættismaðurinn til þess að heimsækja eyjuna í aldarfjórðung. Á fundi með Tsai Ing-wen, forseta Taívans, hét hún áframhaldandi vinskap og stuðningi.
Í fréttum kínverska ríkismiðilsins CCTV kom fram að æfingin fari fram á sex stöðum undan ströndum Taívans. Alvöru skotfæri eru nýtt við æfingarnar, fjöldi herskipa og flugvéla. Æfingasvæðin eru sum afar nálægt Taívan, eða í um tuttugu kílómetra fjarlægð.
Taívanska varnarmálaráðuneytið sagðist í yfirlýsingu vakta heræfinguna grannt. Eyríkið sé tilbúið til átaka en mun ekki stofna til þeirra sjálft. Viðbúnaðarstig var hækkað vegna æfinganna.
G7-ríkin fordæmdu heræfinguna af hörku í yfirlýsingu. Sögðu enga réttlætingu fyrir svo óvægni aðgerð á Taívanssundi.