„Sérstök tilfinning að horfa á golf í Vestmannaeyjum“

Mynd með færslu
 Mynd: GSÍ

„Sérstök tilfinning að horfa á golf í Vestmannaeyjum“

04.08.2022 - 14:47
Það er mikið um dýrðir í Vestmannaeyjum um þessar mundir. Síðustu helgi var það Þjóðhátíð en nú er komið að Íslandsmótinu í golfi. Leikar hófust í morgun en baráttan harðnar með hverjum deginum. Ólafur Þór Ágústsson og Jón Júlíus Karlsson vita hvað þeir syngja um sportið. Munu þeir lýsa herlegheitunum um helgina en sýnt verður frá mótinu beint á RÚV á laugardag og sunnudag. Völlurinn í Eyjum er glæsilegur og það er allt galopið hjá báðum kynjum en mótið hefur sjaldan eða aldrei verið jafn sterkt

Keppni hófst í morgun og er virkilega jöfn. Sara Kristinsdóttir frá Golfklúbbi Mosfellsbæjar leiðir kvennaflokk eins og er ásamt Guðrúnu Brá frá Keili. Kristófer Orri Þórðarson frá Golfklúbbi Kópavogs leiðir flokk karla.

Hér má finna rástíma, stöðu og úrslit og hér myndasafn af mótinu.

Íslandsmótið hófst í morgun og því lýkur á sunnudag en RÚV mun sýna beint frá mótinu á laugardag og sunnudag. Útsending hefst klukkan 15 á laugardag en klukkan 14:30 á sunnudag.

 

Jón Júlíus Karlsson lýsandi á Golfstöðinni og Framkvæmdastjóri Ungmennafélags Grindavíkur

Jón telur að keppnin verði algjör veisla fyrir áhorfendur, jafnt heima og fyrir þá sem eru í Eyjum. Telur hann að mótið sé galopið og að jafnvel verði óvæntur Íslandsmeistari karlamegin.

„Fyrir þá sem eru á svæðinu þá eiga menn að mæta á völlinn. Það er alltaf frábært að standa í dalnum í Eyjum og fylgjast með mótinu. Maður getur séð svo mikið af golfi í einu. Svo er líka að tjúna inn. Það er sérstök tilfinning að horfa á golf í Vestmannaeyjum því það er svo flott útsýni. Það er svo mikið af flottum golfholum sem er verið að spila á. Magnaðar sjónvarpsholur í raun.“

Hvernig líst þér á mótið í ár?

„Mjög vel. Það er mikill sjarmi að hafa þetta í Eyjum. Það hefur verið smá tími síðan mótið var haldið þar. Völlurinn er skemmtilegur og mjög flottur í sjónvarpi. Þetta er með skemmtilegri Íslandsmótum sem fara fram enda er alltaf mikil stemning í Eyjum. Ég er mjög spenntur fyrir helginni.“

Hverjar þykir þér vera sigurstranglegastar kvennamegin?

„Guðrún Brá hlýtur að vera sigurstranglegust þar sem hún vann mótið þrjú ár í röð, svo var hún ekki með í fyrra. Ég myndi telja að hún væri sigurstranglegust, búin að vera að spila í atvinnumennskunni í ár. En það er mikil samkeppni kvennamegin og miklu meiri en oft hefur verið. Ólafía Þórunn er að koma sterk inn í keppnisgolf á ný eftir barnsburð. Svo hefur Hulda Clara titil að verja. Ragnhildur getur hæglega orðið Íslandsmeistari. Þannig það eru þarna nokkrar sem eru í baráttunni um þetta. Svo eru fleiri ungar stelpur eins og Perla Sól Sigurbrands sem er mjög efnileg. Hún gæti alveg blandað sér í baráttuna. Svo veltur þetta líka á veðri, hvort að veðurguðirnir séu tiltölulega þægir.“

Hvernig finnst þér horfur í kvennagolfi almennt?

„Það er frábær þróun í gangi. Það hefur í gegnum tíðina verið nokkuð fámennt í gegnum tíðina á þessum mótum í kvennaflokki. Það er mjög jákvæð þróun hvað það hefur verið mikil fjölgun. Það er hægt að gleðjast yfir því. En það er ekki bara fjölgun heldur er mikið af góðum kylfingum að koma fram.“

„Það eru gamlir Íslandsmeistarar líkt og Þórdís Geirsdóttir sem eru með. Þannig það eru hörku góðir kylfingar þarna og það gætu alveg komið einhver óvænt nöfn í baráttuna þegar kemur að seinni helming mótsins.“

Hvernig horfir baráttan við þér karlamegin?

„Þetta er galopið karlamegin myndi ég segja. Það vantar Harald Franklín, Axel Bóas og Bjarka Péturs sem hafa verið að vinna þetta mót á undanförnum árum. Þeir eru farnir í atvinnumennsku og eru að spila erlendis um helgina. Sá kylfingur sem þykir sigurstranglegastur fyrir fram er líklega ríkjandi Íslandsmeistari Aron Snær.“

„Ég myndi segja að mótið sé algjörlega galopið. Það er fullt af köppum sem geta unnið þetta mót. Það er mjög erfitt að spá til um það. En ef ég ætti að skjóta á einhvern nöfn myndi ég henda mínum veðmálapeningum á að Aron Snær verji titilinn.“

Eru einhverjir ákveðnir kylfingar sem þér þykja spennandi í ár?

„Ég myndi fylgjast vel með Perlu Sól. Hún er mjög ung og var að vinna mjög virt Evrópumót ungmenna í síðasta mánuði. Perla er með +4 í forgjöf og er í kringum 16 ára aldur þannig hún á mjög spennandi framtíð fyrir sér. Karlamegin er smá nostalgía í mér en ég er mjög spenntur að sjá hvernig klúbbmeistaranum í Vestmannaeyjum mun ganga, honum Örlygi. Hann er von Eyjamanna á að heimamaður muni taka þetta. Hann spilaði mjög vel í meistaramótinu hjá Eyjamönnum. Örlygur þekkir þennan völl inn og út enda unnið sem vallarstjóri þarna í fjölda ára. Ég er svolítið spenntur að sjá hvort að hann muni blanda sér í baráttuna.

Nýr Íslandsmeistari í karlaflokki?

„Fljótt á litið þá á ég von á því að það verði nýr Íslandsmeistari í karlaflokki. Einhver ungur kappi jafnvel sem hefur ekki orðið Íslandsmeistari áður. Einn kylfingur sem ég get nefnt sem hefur verið stöðugur í keppnisgolfi er Hákon Örn Magnússon, sem spilar hjá Golfklúbb Reykjavíkur. Svo eru svona tíu aðrir sem ég gæti nefnt, en hann hefur spilað einna jafnast á undanförnum tveimur árum. Af þessum ungu strákum sem eru ekki alveg þekktir. Í raun og veru er þetta galopið karlamegin.“

„Svo eru sleggjur eins og Magnús Lárusson sem geta líka átt góða helgi. Einnig Kristján Þór Einarsson sem vann þetta mót fyrir fjórtán árum árið 2008.“

Mynd með færslu
 Mynd: GSÍ

Ólafur Þór Ágússton, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Keilis.

Ólafur Þór telur að Eyjamenn rúlli mótsstjórn upp eins og þeim er einum lagið. Þriggja metra púttin munu telja mikið og vonandi leika veðurguðirnir við keppendur alla helgina.

Hvernig líst þér á mótið í ár?

„Mér líst ógeðslega vel á þetta. Völlurinn í Eyjum er einn af mínum uppáhalds golfvöllum á Íslandi. Hann er vanalega í mjög góðu standi, og þá góðu keppnisstandi. Ef að veðrið leikur við okkur, sem er stærsta áhættan í þessu öllu saman, held ég að við gætum verið að horfa á bæði gott og skemmtilegt golf. En svo breytist þetta allt ef að veðrið fer að stríða okkur eitthvað.“

Heldurðu að það sé ekkert of knappt á milli mótsins og Þjóðhátíðar sem fram fór síðastliðna helgi?

„Nei, ég held að Eyjamenn fari nú létt með þetta. Þeir eru skipulagðir og vita nákvæmlega hvað er að koma til þeirra. Ég held að þetta verði til fyrirmyndar, þó að þetta sé svona óbeint ofan í Þjóðhátíð. Ég held að þeir hafi gert einhverjar ráðstafanir til að láta þetta allt saman rúlla í gegn.“

Hverjar eru sigurstranglegastar í kvennaflokk?

Guðrún Brá og Ólafía Þórunn leiða sterkan kvennakeppenda hóp, en Ólafur sér þetta þannig að aðrar gætu gert tilkall. „Ég held að Hulda Clara, Ólafía, Ragnhildur, Guðrún Brá og Perla verði líklegar. Þetta er svolítið svona hver kemur rétt stemmd og er í stuði. En við erum líka að sjá kvennamegin alveg gífurlega breytingu. Þegar maður fer að skoða forgjöfina, hversu langt íslenskt golf er komið. Við erum með eina með +5.2 og +3.8. Við erum með fjórar, fimm sem eru með +3 og betra. Þetta sýnir hvað við erum komin rosalega langt í þessu. Ég á von á því að Lea Lúðvíksdóttir verð sterk, sem hefur verið að leika flott golf, og einnig Heiðrún Anna. Þetta snýst svolítið um hver nær að halda tempóinu.“

En hverjir eru sigurstranglegastir karlamegin?

„Þeir sem eru hvað öflugastir í þessu ef við erum að horfa á þetta út frá forgjöf, þá er það fyrir það fyrsta ótrúlega lágar forgjafir sem við erum að sjá í dag. Það hefur verið ótrúleg breyting í því. Við erum með +4.1 hjá til dæmis Aroni Snæ frá GKG og Rúnari Arnarssyni úr Keili. Maður hefur sjaldan séð svona, að manni sýnist, sterkt field. Það eru rosalega margir sem geta blandað sér í toppbaráttuna karlamegin. Það eru gífurlega sterkir einstaklingar eins og Gísli Sveinbjörnsson og Hlynur Bergsson, sem dæmi. Hákon Örn og Andri Þór. Þetta eru allt nöfn sem verða þarna í baráttunni. Ef ég ætti að þrengja þetta eitthvað niður þá hugsa ég að þessir aðilar verða örugglega í baráttunni. Andri Þór á eftir að verða mjög öflugur enda í atvinnumennskunni.“

En svo snýst þetta mikið til um dagsform enda er oft lítill munur á milli þegar bestu keppendur landsins mæta til leiks.

„Svo er þetta mikið til hverjir eru að setja þriggja metra púttin niður og hver er öruggastur á flötunum. En Rúnar Arnórsson í Keili hefur verið að spila gífurlega vel upp á síðkastið. Ég held þetta verði gífurlega spennandi.“

„Það mun skipta máli hvenær keppendur fara út, þar sem veðuraðstæður skipta gífurlega miklu máli. En mér sýnist miðað við uppstillinguna á fyrsta deginum þá eru þau  forgjafarlægstu í röð. Þannig þau eru að berjast á sama tíma. Það verður gaman að sjá hver setur þriggja metra púttin í. Það verður lykillinn að þessu.“

Það er metfjöldi kvenþáttakenda í ár. Erum við að horfa upp á ákveðna kvennabyltingu í íslensku golfi?

„Það ætla ég rétt að vona. Framtíð kvennagolfsins er björt. Við erum með bæði Ólafíu og Guðrúnu Brá sem eru mjög aktívar á atvinnumannamótaröðum. Maður horfir á nöfnin í röðum, Ragnhildur, Hulda Clara og Perla Sól. Það er rosalega gaman að sjá þessa flóru af íslenskum kvenkylfingum að vera að bæta sig svona gífurlega mikið. Ungar og efnilegar stelpur eru einnig að koma upp.“

„Ég vona að veðrið verði ekki í aðalhlutverki. Að sjá svona stóran, flottan hóp samankominn í svona sterku golfmóti. Mér þætti það svolítil synd ef við fáum þess ekki notið vegna erfiðra aðstæðna. Þó að golf gangi allt út á það hver spilar best, og það spila allir við sömu aðstæður. En það sem maður spyr sig er hvort að veðrið verði í aðalhlutverki."

„Ég vona að það verði gæðagolf sem við munum horfa á í beinni útsendingu, og ég er alveg sannfærður um það. Til að koma því til skila í stofur landsmanna vona ég að veðrið fari ekki að stríða okkur."

Lesa má meira um mótið hér í frétt RÚV fyrr í dag.