Kveikt í gróðri í Galisíu á Spáni

04.08.2022 - 16:09
epa10105495 Two firefighters walk near the forest fire in Verin (Ourense), Spain, 04 August 2022. The fire has burned 600 hectares so far and the region of Galicia faces new fire dangers in August after ravaging fires in the month of July.  EPA-EFE/BRAIS LORENZO
 Mynd: EPA-EFE
Fjölmennur hópur slökkviliðsmanna berst við skógar- og kjarrelda í norðvesturhluta Spánar. Á þriðja tug flugvéla eru notaðar við slökkvistarfið. Hvassviðri og mjög mikill hiti er á þeim slóðum þessa stundina.

Í yfirlýsingu sem héraðsstjórnin í Galisíu sendi frá sér í dag segir að svo virðist sem kveikt hafi verið í gróðri á nokkrum stöðum í gær. Eldarnir brenna í grennd við bæinn Verin skammt frá landamærum Spánar og Portúgals. Þar hafa að undanförnu verið mestu þurrkar aldarinnar. Um það bil sex hundruð hektarar eru þegar brunnir. Yfirvöld í héraðinu telja ekki að eldarnir ógni íbúðarbyggð eins og sakir standa og því hefur ekki þurft að flytja fólk á brott.

Spánverjar hafa þurft að berjast við 354 gróðurelda það sem af er ári. Mikill hiti og þurrkar hafa gert baráttuna enn erfiðari en ella. Hátt í 230 þúsund hektarar eru þegar brunnir, samkvæmt mati Upplýsingaþjónustu Evrópu um gróðurelda (EFFIS), sem nýtir gervitunglamyndir til að fylgjast með ástandinu. Þriðja hitabylgjan síðan í júní gengur yfir Spán þessa dagana. Spáð var yfir fjörutíu stiga hita í dag í suður- og austurhluta landsins.