
Pelosi og fylgdarlið hennar er farið til Suður-Kóreu, eftir að hafa vakið þessi hörðu viðbrögð Kínverja. Á fundi með forseta Taívans hét hún stuðningi við stoðir lýræðis í Taívan, sem hún sagði rótgrónar og sterkar.
Stjórnvöld í Kína hafa brugðist harkalega við. Þau telja heimsókn Pelosi ógn við fullveldi landsins og sagði Wang Yi utanríkisráðherra Kína í morgun að heimsóknin væri „brjálæðisleg og óábyrg.“ Kína hefði gert allt til að koma í veg fyrir krísuástandið sem nú væri að skapast. Kína hefði þó ekki annan kost en að verja fullveldi landsins og kjarnahagsmuni þjóðarinnar, sagði ráðherrann.
- Sjá einnig: Hóta hernaðaríhlutun vegna heimsóknar Pelosi
Kínverski herinn, sem þegar er á hæsta viðbúnaðarstigi vegna togstreitu á milli ríkjanna, hefur hafið umfangsmiklar heræfingar við strendur eyríkisins.
Ráðherrann sagði að Taívan yrði að endingu hluti af móðurlandinu á nýjan leik. Með afskiptum sínum holi Bandaríkin niður opinbera stefnu ríkisins um eitt og sameinað Kína.
Flugskeytum skotið að Taívan
Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá því að kínverskum Dongfeng-flugskeytum hafi verið skotið að ströndum eyríkisins sem hluti af heræfingunum á Taívansundi, bæði við norðausturströndina og í suðvestri.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir í morgun að ástandið væri alfarið á ábyrgð Kínverja. Hann sagðist binda vonir til þess að Kína myndi ekki nýta sér aðstæðurnar til þess að auka enn togstreituna á svæðinu og magna upp átökin.
Vaxandi hernaðarumsvif Kínverja hafa um nokkurt skeið valdið áhyggjum um fyrirætlanir þeirra gagnvart Taívan. Kínverski herinn hefur aukið vígbúnað við Taívan og ítrekað rofið lofthelgi landsins með lágflugi orustuþotna. Heimsókn Pelosi virkaði sem olía á þann eld og samskipti stjórnvalda í Peking og Washington við frostmark.
Umfangsmiklar heræfingar
Kínversk herskip umkringja nú Taívan og stunda þar mestu heræfingar í sögu kínverska flotans. Að sögn taívanskra stjórnvalda er eyjan í herkví. Orustuþotur hafa nú bæst við og flugskeytum skotið úti fyrir ströndum eyríkisins.
- Sjá einnig: Stærsta heræfing í sögu Kína hafin við Taívan
Stjórnvöld í Taívan líta á þessi umsvif Kína sem ögrun og hafa hækkað viðbúnaðarstig hersins. Þau skilgreina eyríkið sem sjálfstætt ríki en stjórnvöld í Kína líta á landið sem hérað innan Kína og á núverandi stjórnvöld á Taívan sem aðskilnaðarsinna.
Taívanska varnarmálaráðuneytið hefur lýst því yfir að her landsins sé tilbúinn að grípa til varna, komi til innrásar eða átaka við kínverska herinn.
Today, our Congressional delegation had the special privilege of greeting members of the South Korean honor guard. Their selfless service is crucial to protecting the Korean people – and to safeguarding Democracy for generations to come. pic.twitter.com/l1xzEah6TJ
— Nancy Pelosi (@SpeakerPelosi) August 4, 2022