Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon/Guðmu - RÚV

Hætta á að nýjar sprungur opnist
04.08.2022 - 18:41
Ekki er komið jafnvægi á þrýsting í kvikugangi undir gossprungunni í Meradölum, en samkvæmt jarðeðlisfræðingum felur það væntanlega í sér að annaðhvort muni flæðið aukast upp úr ganginum eða þá að gos geti hafist á nýjum stað. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu frá almannavörnum.
Veðurstofan birtir mynd af allstóru svæði norðaustan við gossprunguna, þar sem hætta er á að nýjar gossprungur opnist.
Rennsli hefur minnkað
Eins og áður hefur komið fram hefur gossprungan minnkað nokkuð frá því sem var í gær. Hún er nú um 100 metar að lengd, en var 300 þegar hún opnaðist.
Nýjustu hraunflæðimælingar sýna að dregið hefur úr hraunflæðinu, en milli klukkan 17 í gær og 11 í morgun var meðalhraunflæði um 18 rúmmetrar á sekúndu, samanborið við 32 rúmmetra á sekúndu fyrstu klukkutímana.
Loftmyndataka klukkan 11 í morgun sýndi að hraunið þekur um 144.000 fermetra, eða sem samsvarar 20 fótboltavöllum (hér er að sjálfsögðu miðað við 105x68 metra velli). Rúmmálið á sama tíma var 1,60 milljón rúmmetrar.
Mynd: Veðurstofan - RÚV