Griner dæmd í níu ára fangelsi í Rússlandi

epa10105872 U.S. basketball player Brittney Griner seats inside a defendants' cage before the court's verdict in Khimki City court in Khimki outside Moscow, Russia, 04 August 2022. The Khimki City Court has sentenced Griner to nine years in prison after finding her guilty on charges of drug smuggling.  EPA-EFE/EVGENIA NOVOZHENINA / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Dómstóll í Rússlandi hefur dæmt bandarísku körfuboltastjörnuna Brittney Griner í níu ára fangelsi, en hún var fundin sek um vörslu og smygl fíkniefna. Griner var stöðvuð við landamæraeftirlit í Rússlandi í febrúar en í fórum hennar fannst kannabisvökvi ætlaður í rafrettu.

Griner er bandarísk landsliðskona í körfubolta og hefur tvívegis orðið Ólympíumeistari. Hún leikur með Phoenix Mercury í WNBA-deildinni en hafði ferðast til Rússlands til að spila með rússnesku liði. Slíkt er — eða var, í það minnsta — vinsælt meðal leikmanna í bandaríska kvennakörfuboltanum meðan bandaríska deildin er í fríi.

Griner játaði sök fyrir dómi en sagðist ekki hafa ætlað sér að brjóta lög.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sagt dóminn óviðunandi og að hann muni beita sér af öllu afli til að frelsa hana og aðra Bandaríkjamenn í Rússlandi.

Stjórnmálaskýrendur vestra hafa sakað Rússa um að gera Griner að pólitísku peði í samningaviðræðum við Bandaríkin vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Í síðustu viku greindu bandarískir fjölmiðlar frá því að þeir hefðu heimildir fyrir því að samkomulag væri í burðarliðnum um fangaskipti Rússa og Bandaríkjamanna.

Rússar fengju alræmdan vopnasala sem er í haldi Bandaríkjamanna, en slepptu þess í stað Griner og fyrrverandi landgönguliðann Paul Whelan sem afplánar dóm fyrir njósnir.